Flekkir fyrir augunum

24.01.2008

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég er gengin rétt tæplega 29 vikur og er farin að fá svona flekki fyrir augun. Ef ég horfi lengi á sama hlutinn þá sé ég flekki alls staðar annars staðar þegar ég lít í burtu. Þetta á sérstaklega við um ef ég horfi á litaða hluti (ekki svart og hvítt sem sagt). Blóðþrýstingurinn hjá mér er örlítið í hærri kantinum (segir mín ljósmóðir) 150/80 í síðustu skoðun. En annað hefur gengið mjög vel.

Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af?


Sæl og blessuð!

Þar sem þú nefnir að blóðþrýstingurinn sé í hærri kantinum þá vil ég ráðleggja þér að fá að koma í aukaskoðun í mæðravernd því þetta getur verið einkenni um alvarlega meðgöngueitrun. Þetta getur líka verið alveg saklaust en bara vissara að láta mæla blóðþrýstinginn og athuga með prótein í þvaginu.

Vona að allt gangi vel hjá þér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. janúar 2008.