Flensa á fyrstu vikum meðgöngu

20.08.2012
Sæl
Mig langaði að spyrja þig hvort flensa (hiti, mikið kvef, hor og hósti) gæti haft áhrif á þroska fóstursins á fyrstu vikunum. Þegar ég var komin eina viku framyfir tíðahringinn minn fékk ég heiftarlega flensu og lá í rúminu í 2 vikur og endaði á að þurfa fara á sýklalyf því ég náði þessu ekki úr mér. Ég var að hafa áhyggjur af því að þetta líkamlega ástand mitt gæti haft áhrif á þroska fóstursins þarna á fyrstu vikunum því ég las að miðtaugakerfið væri á þroskast fyrstu vikurnar.
Bk. JúlíaSæl
Það er erfitt að segja til um hvort veikindi þín hafi haft áhrif á fósturþroska því fáar rannsóknir hafa verið gerðar á því sviði. Það er þó mögulegt en sjaldgæft að veiran komist til fóstursins og hafi áhrif. Aðal hættan fyrir fóstrið er hinsvegar hár hiti, sérstaklega á fyrstu 12 vikum meðgöngu þegar taugakerfið er að þroskast. Því er mikilvægt að halda hita niðri og betra að taka hitalækkandi lyf en að láta líkamann vinna á hitanum. Á meðgöngu er óhætt að nota Parasetamol við hita og verkjum.
Þegar barnshafandi konur fá inflúensu verða þær oft veikari en aðrir vegna áhrifa sem þungunin hefur á líkamann. Þess vegna er mikilvægt að fara vel með sig og fá meðferð eins og þú hefur gert.
Gangi þér vel.

Bestu kveðjur,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. ágúst 2012