Spurt og svarað

03. maí 2013

Flug seint á meðgöngu

Sæl
Ég var að komast að því að ég er ólétt og við fjölskyldan eigum pantaða ferð til Tælands þegar ég verð komin 30 vikur og aftur heim þegar ég er komin 34 vikur. Þetta er 10 tíma beint flug (við erum búsett í Svíþjóð). Samkvæmt flugfélaginu má ég ferðast fram á 36 viku. Ég á eitt barn fyrir og sú meðganga gekk rosa vel, vann fram á 39. viku. Ég er u.þ.b. 30 kg of þung en er samt 30 kg léttari núna en ég var á síðustu meðgöngu. Er ég að taka óþarfa áhættu ef við ákveðum að halda okkur við sett plön?




Sæl!
Takk fyrir að leita til okkar.
Þegar konur ákveða að ferðast á seinni hluta meðgöngu þarf alltaf að meta aðstæður hverju sinni. Það er ekki það sama að fara í helgarferð þar sem flugið tekur 2klst hvora leið og við höfum góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og að fara í 10 tíma flug til fjarlægra landa. Flugið eitt og sér er ekki eini áhættuþátturinn heldur þarf að taka fleiri þætti inn í myndina eins og lengd flugsins og áfangastaðurinn. Þó svo að flugfélagið heimili flug fram að 36 viku er það ekki trygging uppá að ekkert komi fyrir. Samkvæmt rannsóknum getur flug á meðgöngu aukið líkur á blóðtappa og fyrirburafæðingu, hættan eykst eftir því sem flugið er lengra og hefting á hreyfingu er meiri.
Það sem almennt þarf að hafa í huga þegar lagt er í ferðalag til fjarlægra landa eins og Tælands er t.d. aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ferðamannabólusetningar og hætta á sýkingum. Á meðgöngu þurfum við að fara varlega þegar kemur að bólusetningum og við viljum hafa gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu ef meðgöngukvillar koma upp. Einnig er mikilvægt að komast hjá matarsýkingum eftir fremsta megni en hættan er meiri þegar við ferðumst til fjarlægra landa.
Ég get ekki ráðleggja þér að fara í þessa ferð og tel að áhættan gæti verið nokkur, þá aðallega með tilliti til hættu á sýkingum og hættu á fyrirburafæðingu vegna langs flugs. Auðvitað er ákvörðunin þín þegar allt kemur til alls og vil ég benda þér á bæklinginn „Flug á meðgöngu“ hér á ljosmodir.is.
Gangi ykkur vel.

 
 
Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. maí 2013.





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.