Flug til Bandaríkjanna við 30 vikur

25.04.2012
Mig langar að forvitnast um flug á meðgöngu þannig er mál með vexti að ég var búin að panta mér miða til Bandaríkjanna áður en ég varð ólétt. Þegar ég fer út verð ég komin 28-29 vikur á leið og rúmlega 32 vikur þegar ég fer heim aftur. Ég er búin að kynna mér reglurnar hjá Icelandair en mig langar líka að fá fagráð hjá ykkur og hvað ykkur finnst um svona löng flug og hvað ég þarf að passa ef ég má fljúga á þessum tíma.Sæl og blessuð!

Þú þarft kannski að velta því fyrir þér hvort þú vilt vera annars staðar en á Íslandi á þessum tíma meðgöngunnar og hafa í huga hvernig þér myndi líða með það að fæða fyrir tímann í öðru landi. Og með þetta í huga
ættir þú að kanna hvort ferðatryggingin dekki allt sem getur komið upp í sambandi við meðgöngu og fæðingu.

Ef þú hefur átt eðlilega meðgöngu er þér óhætt að fljúga fram að 36. viku meðgöngunnar. Ef einhver vandamál eru til staðar er rétt að ráðfæra sig við ljósmóður eða lækni.

Áður en lagt er af stað í ferðalag er gott að fá skoðun hjá ljósmóður eða lækni og vottorð sem staðfestir væntanlegan fæðingardag og að þér sé óhætt að ferðast. Slík skoðun er öryggisatriði fyrir þig og vottorðið kemur í veg fyrir óþarfa tafir og vangaveltur á flugvellinum. Sum flugfélög gera kröfu um læknisvottorð frá 28. viku, önnur seinna. Flest flugfélög gera kröfu um að vottorðið sé ekki eldra en 3-7 daga gamalt.

Flug á meðgöngu eykur lítillega áhættuna á blóðtappamyndun. Ef þú klæðist stuðningssokkum í flugi bætir það blóðrásina og dregur úr bjúgmyndun. Einnig eru til sokkar sem eru sérstaklega hannaðir fyrir flug. Best er að klæðast stuðningssokkunum um leið og þú ferð á fætur og vera í þeim allan daginn sem þú ferðast. Ekki er talin þörf á stuðningssokkum nema flugferðin vari í meira en 4 tíma. Konur sem eru í sérstakri áhættu á að fá blóðtappa ættu að ráðfæra sig við lækni í sambandi við fyrirbyggjandi lyfjameðferð. Áhættuþættir fyrir blóðtappa eru t.d. fyrri saga um blóðtappa, miklir æðahnútar og mikil ofþyngd.

Nokkur góð ráð fyrir flugferðina:
  • Fáðu þér sæti við gang þannig að þú getir óhindrað staðið upp og labbað aðeins um. Gott að standa upp á 30 mínútna fresti.
  • Vertu í þægilegum fötum sem þrengja ekki að.
  • Spenntu sætisbeltið þannig að það liggi undir kúlunni.
  • Drekktu vel af vatni. Þurra loftið í vélinni eykur hættu á ofþornun.
  • Gerðu æfingar með fótunum, beygðu og réttu ökklana og gerðu hringi með ökklunum.

Ferðakveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. apríl 2012.