Spurt og svarað

04. maí 2015

Flugferð

Góðan daginn, ég sendi ykkur inn fyrirspurn rétt áður en það komu upp tæknivandamál á síðunni um daginn, ég veit ekki hvort að hún hafi skilað sér þannig að ég sendi bara aftur :) Ég er núna að ganga með mitt fyrsta barn og er á leiðinni til útlanda, ferðin verður þegar ég verð komin 23-25 vikur. Ég er búin að kynna mér mikið um flug á meðgöngu og hef útvegað mér stuðningssokka. Þegar ég ræddi ferðina við ljósmóðurina mína fór hún að tala um allt sem gæti farið úrskeiðis. Mér þótti það virkilega óþægilegt og byrjaði að stressast upp fyrir ferðina sem nálgast nú óðum. Það hafa ekki komið upp nein vandamál á meðgöngunni hingað til og ég er heilsuhraust. Ég var bara að velta því fyrir mér hvort að þið vissuð hvers vegna henni þótti þörf á því að hræða mig svona, aukast líkurnar á því að eitthvað gerist með því að fara í flug? Bestu kveðjur og takk fyrir góða síðu!


Heil og sæl, varðandi flug á meðgöngu þá hefur ljósmóðirin þín kannski verið að hugsa um að líkur á blóðtappa aukast smávegis á flugferðum. Það kemur ekki fram hjá þér hvað flugið er langt. Það er gott að þú sért búin að útvega þér stuðningssokka, þú skal nota þá. Það er líka gott að drekka vel af vatni og hreyfa sig reglulega á leiðinni.  Þú skalt standa upp á klst. fresti og rölta aðeins um vélina. Þú getur líka snúið ökklum og hreyft tær. Ég tek það fram að þetta sem ég er segja núna er gott fyrir alla sem eru að ferðast með flugi og sum flugfélög hafa leiðbeiningar í sætisvasanum sem sýna þær æfingar sem hægt er að gera. Þú getur farið áhyggjulaus í ferðalagið – líkur á blóðtappa eru litlar og ennþá minni þegar þú viðhefur þessar varúðarleiðbeiningar. Góða ferð.

Áslaug V.
ljósmóðir
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.