Spurt og svarað

23. maí 2008

Flygsur fyrir augum

Góðan dag!

Ég er komin 31 viku á leið. Undanfarnar vikur hef ég verið með svima og slöpp og verið að missa jafnvægi og hef ég farið til læknis og fengið þá greiningu á að þetta sé blóðleysi þar sem að ég er rosalega föl og einnig mældi ljósan mín það með því að stinga í puttann á mér og mældist þá um 90.
Ég er að taka járn en var sagt að tvöfalda þann járnskammt. Í gær þegar að ég var að keyra sá ég í stutta stund svartar flygsur fyrir augum. Blóðþrýstingurinn hefur alltaf verið nokkuð eðlilegur hjá mér en í eitt skiptið þegar að ég mældi hann stuttu eftir slæmt svimakast þá sýndi mælitæki sem ég á, 120/53. Hvað gæti þetta verið, er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af, þar að segja að hafa séð þarna svartar flygsur?

Kveðja.


Sæl og blessuð!

Þú ættir að hringja í ljósmóðurina þína í dag og fá að koma í aukaskoðun. Það þarf að taka hjá þér blóðprufu og skoða betur hvað er í gangi. Ef þú ert svona lág í blóði þá getur vel verið að þú þurfir að fá járnsprautur eða blóðgjöf. Þú ættir ekki að keyra sjálf meðan þér líður svona.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.