Fólínsýra og klósettþrif!

13.12.2007

Góðan daginn!

Ég var að komast að því að ég er ólétt, er komin rúmar 5 vikur. Ég er að taka inn þunglyndislyfið Cipralex, svo ég fór til heimilislæknisins míns og við ákváðum að taka mig hægt og rólega af Cipralexinu. Svo ávísaði hún á mig fólinsýru, 5mg á dag. Þær töflur voru ekki til í apótekum svo að sú í apótekinu ráðlagði mér 400 µg töflur og ég þarf að taka 12 töflur á dag. Ég sá ekki hvað þetta var mikið fyrr en lyfjafræðingurinn í apótekinu benti mér hvað ég ætti að taka í staðinn. Er heilbrigt að taka svona svakalega mikið inn af fólinsýru? Getur verið að læknirinn minn sé að bæta svona svakalega á fólínsýruna útaf þunglyndislyfjunum?

Svo önnur spurning. Mér var bent á að láta það vera að skipta um kattarsand á meðgöngunni og þá pæli ég líka þarf ég þá að setja það í hendurnar á manninum mínum að þrífa klósett þá líka?

Með þakklæti fyrir þennan æðislega vef, Fröken áhyggjufull.


Sæl Fröken áhyggjufull!

Öllum barnshafandi konum er ráðlagt að taka inn 400 µg (0,4 mg) af fólínsýru fyrstu 12 vikurnar og helst í nokkrar vikur fyrir getnað. Nú er verið að ráðleggja konum á barnseignaraldri að taka inn fólínsýru ef ske kynni að þær yrðu barnshafandi. Í vissum tilfellum ráðleggja læknar barnshafandi konum að taka inn meira af fólínsýru og þá er oft miðað við 5 mg. Þetta er oft vegna þess að ákveðin lyf vinna gegn fólínsýru í líkamanum og þá er gott að bæta það upp með því að taka það inn í stærri skömmtun. Í upplýsingum um Cipralex er þess reyndar ekki getið að það vinni gegn fólínsýru. Það eiga að vera til 5 mg. töflur af Fólínsýru - þannig að þú ættir kannski að prófa annað apótek ef þú átt lyfseðilinn ennþá.

Varðandi klósettþrifin þá get ég því miður ;-) ekki ráðlagt þér að setja það alfarið í hendurnar á manninum þínum en auðvitað er um að gera að setja hann inn í málin því það getur komið sér vel að hann kunni tökin á þessu þegar lengra líður á meðgönguna. Ég veit a.m.k. ekki um neina ástæðu sem mælir gegn því að barnshafandi konur þrífi klósett. Það er öðruvísi með kattarsandinn og þú getur lesið ástæðuna fyrir því í fyrirspurn sem heitir Bogfrymlasótt.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. desember 2007.