Fólínsýra og ógleði

12.12.2007

Sælar! Ég vil byrja á að hrósa ykkur fyrir frábæran vef:)

En málið er þannig að núna er ég ófrísk af mínu fyrsta barni og er gengin um 8 vikur samkvæmt sónar. Ég er búin að vera með mikla ógleði í nokkrar vikur núna og mér finnst hún magnast þegar ég tek fólínsýru töflurnar. Ég hef prófað að sleppa úr einum og einum degi með fólínið og finn þá mikinn mun á mér. Er eitthvað sem ég get gert í þessu eða verð ég bara að sætta mig við þetta?

Svo langar mig líka að spyrja að einu í viðbót, ég er alltaf þreytt, ég get sofið endalaust.

Með von um skjót svör, Ég:)


Sæl og blessuð!

Það er ekki algengt að konur finni fyrir aukinni ógleði við að taka inn fólínsýru. Reyndar er talað um ógleði sem mögulega aukaverkun þegar tekið er inn of mikið af fólínsýru. Ráðlagður dagskammtur fyrir barnshafandi konur eru almennt 400 µg á dag en í vissum tilfellum er konum ráðlagt að taka inn meira en þetta eða allt að 5 mg á dag. Ef þú ert að taka inn 400 µg af fólínsýru á dag þá er ólíklegt að það sé að valda aukinni ógleði hjá þér. Ef þú ert hins vegar að taka stærri skammta þá þarftu að ræða við lækni sem hefur ráðlagt þér það. Þú getur prófað að taka fólínsýruna inn á kvöldin ef þú ert ekki að gera það.

Varðandi þreytuna þá er þetta sennilega bara eðlilegur fylgikvilli meðgöngunnar á þessum tíma. Það er bara gott ef þú getur leyft þér að sofa þegar þú ert þreytt en það getur líka verið hressandi að fara út í göngutúr.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. desember 2007.