Fósturgallar og offita

09.04.2015

Góðan daginn, Ég var að lesa grein hjá ykkur http://ljosmodir.is/?Page=FAQ&ID=1609&Cat=2#1609 og þar kemur fram að svo "virðist vera sem að með aukinni þyngd móður séu auknar líkur á ýmsum fæðingargöllum." Mig langar að vita um hverskonar fæðingargalla er verið að tala? Ég var með BMI 28,7 þegar ég varð þunguð en er mjög heilsuhraust og geng eða hjóla til vinnu á hverjum degi. Ég er samt búin að þyngjast um 11 kg og komin einungis 26 vikur. Mig langaði því að vita hversu mikil hætta er á fæðingargöllum ef ég bæti á mig ca 10 kg í viðbót og fer þá yfir 100 kg. Ég er orðin frekar stressuð yfir þessu en allt hefur komið vel út í sónar og engin einkenni hafa komið fram á meðgöngunni hjá mér. Blóðþrýstingurinn er fínn og ekkert að þvagi. Með bestu kveðju ein óróleg.

 
 Heil og sæl ein óróleg, jú það er rétt að við mikla offitu aukast líkur á taugakerfisgöllum, hjartagöllum og fleira. Þetta á við um þær konur sem að eru með offitu  áður en þær verða þungaðar. Það á ekki við um þig svo að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að falla undir þann hóp . Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
9. apríl 2015