Fósturlát

19.03.2014

Ég er búin að vera hugsa lengi um þetta en ég er ólétt af mínu öðru barni. Ég hef rosa áhyggjur að missa barnið mitt á milli 23. - 30. viku. Það byrjaði þannig að mamma mín var ólétt af sínu fyrsta barni sem var stelpa og hún var heilbrigð og allt það, síðan með annað barnið hennar missir hún litla son sinn milli 23. - 30. viku, og verður síðan ólétt af mér stuttu seinna. Sama gerðist með systur mína, hún eignast stelpu, síðan missir hún annað barnið sitt á 23. - 30. viku, sem var líka lítill strákur, ári seinna eignaðist hún stelpu. Þar sem ég á eina stelpu fyrir og núna ólétt af mínu öðru barni þá get ég ekki hætt að vera stressuð yfir því að þetta muni gerast hjá mér líka, mig langar svo engan vegin að ganga í genum þetta. Mig langar bara að fá að vita hvort þetta er eitthvað í DNA-inu hjá okkur eða hvað? Eru miklar líkur á því að þetta muni koma fyrir mig? Ég er rosalega spennt að fara eignast mitt annað barn en ég næ ekki þessari að sleppa við að finna þessa tilfinningu eins og eitthvað eigi eftir að gerast. Er eitthvað sem ég get gert ? Er alveg að farast úr stressi!
Sæl og takk fyrir að leita til okkar.
Ég er ekki hissa að þú hafir óþægilega tilfinningu fyrir þessu þar sem þetta hefur komið fyrir hjá bæði móður þinni og systur. Þegar við lendum í erfiðum atvikum eins og missi á meðgöngu er eðlilegt að leita skýringa og stundum sjáum við eitthvað mynstur. Stundum er einhver augljós ástæða fyrir missinum en í flestum tilfellum finnst ekkert sem skýrir fósturlátið.  Í rannsóknum hefur komið í ljós að í eðlilegri meðgöngu eru líkurnar á að fæða andvana barn eftir 24 vikna meðgöngu eða meira er 4 – 5,5 á hverjar 1000 fæðingar. Tilraunir hafa verið gerðar með skimunarpróf en ekkert þeirra hefur reynst spá nógu vel fyrir um líkur á andvana fæðingu eða ekki. Forvarnir snúa helst að heilbrigðu líferni, taka fólínsýru og borða hollan og fjölbreyttan mat. Ég hef farið í gegnum fræðilegar heimildir og finn ekkert sem styður það að sumar konur haldi frekar öðru kyninu en vissulega tengjast sum fósturlát erfðaefni okkar, DNA-inu.
Ég ráðlegg þér eindregið að ræða þessar áhyggjur í mæðraverndinni og mundu að það kostar minni orku að hugsa jákvætt.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. mars 2014.