Fósturrannsóknir og tvíburameðganga

19.10.2009

Sælar!

Mig langaði til að forvitnast hjá ykkur íslensku ljósmæðrunum. Ég geng með tvíbura og bý í Danmörku. Kjósi konur að fara í hnakkaþykktarmælingu og blóðprufu er ferlið þannig hérna úti að fyrst fara þær í blóðprufuna og svo einhverju síðar í sónarinn þar sem hnakkaþykktin er mæld. Niðurstöðurnar fá þær svo að lokinni hnakkaþykktarmælingunni, nokkrum mínútum síðar. Ég kaus að fara í þessa mælingu og fór því fyrst í blóðprufuna, þegar svo kom í ljós í sónarnum að von væri á tveimur börnum var okkur sagt að ekki væri hægt að nota niðurstöður blóðprufunnar og því hnakkaþykktarmælingin sjálf látin duga. Hver er ástæðan fyrir því að ekki er hægt að nota niðurstöður blóðprufunnar? Hnakkaþykktarmælingin kom mjög vel út og við erum rosalega hamingjusöm með væntanlega fjölgun. Ég hefði samt viljað fá niðurstöðu úr blóðprufunni líka.

Með góðum kveðjum heim.


Sæl!

Við mælum blóðið og hnakkaþykktina á sama tíma hér og niðurstaða fæst eftir 2-3 daga. Blóðprufan er  notuð bæði í einbura og tvíburameðgöngum. Ég hef ekki skýringu á  hvers vegna þeir nota ekki blóðprufuna með í Danmörku en prógrammið sem notum við útreikninginn hefur verið aðlagað fyrir tvíburameðgöngur.

Kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
19. október 2009.