Fóstursekkur neðarlega í legi

12.12.2007

Sæl.

Ég var að koma úr snemmsónar og læknirinn segir við mig að fóstursekkurinn sé svo neðarlega í leginu, hann hafi bara varla séð svona tilfelli og sagði jafnframt að hann væri ekki viss hvort þetta væri eitthvað til að hafa áhyggjur af. Eins gerir hann athugasemd á sónarblaðið: „Fóstursekkur óvenju neðarlega“. Þetta veldur mér nú engum stórkostlegum áhyggjum en samt óþægilegt. Nú á ég tvær góðar og heilbrigðar meðgöngur að baki og hef ekki lent í því að fá svona athugasemd fyrr. Hafið þið einhver svör af hverju eða hvers vegna þetta gerist?

Takk fyrir mig, Tilvonandi þriggja barna móðir.


Sæl!

Þegar sekkur er neðarlega í leginu er venjulega ekkert til að hafa áhyggjur af ef fóstur sést og hjartsláttur er til staðar.  Einu tilvikin þar sem þyrfti að hafa áhyggjur er þegar sekkurinn festist í leghálsinum en það getur valdið miklum blæðingum.  Ef svo væri ætti læknirinn að hafa séð það og rætt um það við þig.  Annars er þetta sennilega ekkert til að hafa áhyggjur af.

Kær kveðja,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
Hulda Hjartardóttir,
fæðinga- og kvensjúkdómalæknir LSH,
12. desember 2007.