Fótaóeirð

07.10.2012
Góðan daginn!
Ég er gengin 30 vikur með annað barn og hef undan farin kvöld verið að fá kippi í fæturna þegar ég slaka á. Ég er líka með svolítið mikinn bjúg á löppunum og á síðustu meðgöngu fékk ég meðgöngueitrun. Þá fékk ég svona kippi í alla útlimina en bara alveg í endann þegar það var búið að leggja mig inn. Blóðþrýstingurinn var fínn í síðustu skoðun fyrir 2 vikum og ég er nokkuð hress að flestu leiti en skil ekki hvað er með þessa kippi. Er þetta hluti af því sem er kallað fótaóeirð? Ætti ég að láta athuga þetta? Þetta er óþægilegt en ekki beint hamlandi, áttu e-r góð ráð?Sæl!
Ég ráðlegg þér eindregið að hafa samband við ljósmóður í mæðraverndinni hið fyrsta og fá að koma í skoðun, af lýsingu þinni að dæma getur verið að þú sért að þróa með þér meðgöngueitrun. Meðgöngueitrun getur þróast hratt og oft finnur konan engin einkenni þrátt fyrir að blóðþrýstingurinn hafi hækkað hættulega mikið. Vonandi er þetta bara saklaust en það er betra að láta aðgæta þetta til að vera örugg.

Ef blóðþrýstingurinn er í lagi og búið að útiloka að þú sért komin með meðgöngueitrun eru til nokkur ráð við fótaóeirð. Mörgum konum hefur reynst vel að leggja kalda bakstra á fæturna fyrir svefninn og endurtaka jafnvel um miðja nótt ef þær vakna við fótaóeirð. Svo má taka inn magnesíum fyrir svefninn, hægt er að fá magnesíum sem duft eða í freyðitöflum.
Vona að þetta hjálpi.

Með kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. október 2012.