Spurt og svarað

15. júní 2009

Fótapirringur

Ég er komin rúmar 34 vikur á leið og hef þjáðst af fótakippum í fleiri vikur og hef prófað ýmis ráð. Sum þeirra virðast virka í nokkra daga en svo ekki meir. Þetta lýsir sér þannig að á kvöldin þegar ég fer að sofa og stundum eitthvað fyrr fer ég að fá rosalega mikinn fótapirring og fótakippi. Ég finn fyrir spennu í hnjánum sérstaklega, en líka kálfum og sköflungi og fæturnir á mér kippast harkalega til. Stundum hristast þeir hreinlega. Þetta er hrikalega óþægilegt og veldur því að ég á afskaplega erfitt með að slaka á og sofna á kvöldin og hef stundum vakað heilu og hálfu næturnar út af þessu.  Nú er svo komið að svefnleysi er farnið að valda hjá mér samdráttum og fyrirvaraverkjum, auk þess sem ég er dauðþreytt á daginn.  Ég hef reynt að vera dugleg að hreyfa mig, fara í meðgöngusund og göngutúra en það virðist ekki hafa áhrif.  Um tíma virtist hjálpa til að teygja á vöðvunum en núna er það hætt að virka. Ég hef prófað að taka inn magnesíum með kalki og járn með c vítamíni og það virtist líka ætla að draga úr þessu á nokkurra daga tímabili en núna er það alveg hætt að hafa nokkur áhrif. Ég hef prófað að setja hátt undir fæturna og ég hef prófað að láta þá lafa. Ég hef prófað að sofa í rúminu og ég hef prófað að sofa í lazyboy. Ég hef prófað að hrista fótinn sjálf og reyna að losa um spennu og ég hef líka prófað að láta smella í hnénu. Ég hef nuddað fæturna og maðurinn minn hefur prófað að gera það fyrir mig líka en ekkert dugar til. Ég hef meira að segja prófað heilun og höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð en það hafði engin áhrif á þessa fótakippi. Ég er orðin langþreytt á þessu vandamáli og ég veit ekki lengur hvað ég á til bragðs að taka. Það virðist enginn kunna fleiri ráð. Dettur ykkur eitthvað í hug?

Ég er til í að reyna allt...


Komdu sæl.

Það eru nú ekki mörg ráð eftir þar sem þú hefur greinilega verið mjög dugleg að prófa þig áfram með hlutina.  Mér dettur þó í hug kælikrem/gel sem þú getur nuddað þig  með á kvöldin og eftir þörfum.  Þú gætir líka prófað kalt fótabað fyrir svefninn eða kalda bakstra.  Hafa svalt í herberginu sem þú sefur í og vera ekki með heita sæng ofan á þér.

Það sem þú hefur prófað áður gætir þú líka prófað aftur ef það hefur áhrif í nokkra daga er það betra en ekkert.  Magnesíum hefur t.d. reynst konum vel.

Þú gætir líka haft samband við Guðlaugu í 9 mánuðum og athugað hvort nálastungumeðferð getur hjálpað.  Bowen er líka eitt form óhefðbundinna lækninga sem á að hjálpa með ýmislegt.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
15. júní 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.