Spurt og svarað

04. febrúar 2007

Fræðsla og umræðan um fyrirbura

Sælar.

Mig langaði til þess að spyrja hversvegna umræðan um fyrirburafæðingar sé svona lítil í meðgöngueftirliti (engin) og almennri umræðu um meðgöngu og fæðingu? Við erum þó nokkuð margar sem höfum rætt þetta okkar á milli og allar vorum við með fyrirbura án rekjanlegrar ástæðu. Við erum allar svo sammála um að ef við hefðum verið með einhverjar upplýsingar eða fengið um ferlið sem fer í gang við fyrirburafæðingu þegar við upplifðum þetta, þá hefðum við sloppið við ansi mikinn „tilfinningarússíbana“ þegar þetta gerðist. Ég sjálf fór í gegn um bunkann af bæklingunum eftir á og fann allt um rétta fæðu, tannvernd, líkamsbeitingu, nýburann, sængurlegu..líklega allt sem tengist meðgöngu og fæðingu en um fyrirburafæðingar vissi ég ekkert. Sama segja hinar stelpurnar en þær upplifðu þetta líka sem algjört tabú og vissu ekkert hvað myndi gerast næst. Deyr barnið strax? Hvað gerist þegar barnið er fætt? Bara það að fá bækling eða getað lesið um þetta einhversstaðar í ferlinu hefði hjálpað mikið. Þó ekki væri nema grunnupplýsingar um hefðbundi ferli á LSH og hvað gerist?

Ég myndi svo vel skilja það að lítið væri um þetta rætt ef þetta væri sjaldgæft, en þetta virðist síðan ekki vera svo sjaldgæft miðað við fjölda barna sem koma fyrir tímann árlega á vökudeildina.
Eftir alla þessa langloku langaði mig bara til þess að spyrja hvort það væri sérstök ástæða fyrir þessu?

Þetta á alls ekki að vera einhver reiðipistill, er bara undrandi á þessu:) Kærar þakkir annars fyrir góðan vef.

Lovísa


Sæl og blessuð!

Almennt séð er sú fræðsla sem verðandi foreldrar fá á meðgöngu miðuð við eðlilega meðgöngu og fæðingu.  Frávik frá hinu eðlilega geta verið nokkuð mörg, bæði algeng og sjaldgæf frávik.  Það getur því verið erfitt að velja hvað beri að fræða foreldra um og hvað ekki.  Í þeim tilvikum þar sem frávik koma upp hjá konu þá fá foreldrar fræðslu um það s.s. hvað sé framundan, hvaða rannsóknir þurfi að gera, hverju hún geti átt von á o.s.frv.

Ef um hótandi fyrirburafæðingu er að ræða þá fá foreldrar fræðslu á kvennadeildinni um framhaldið.

Hins vegar vil ég þakka þér fyrir ábendinguna. Ákveðna þætti í þessu ferli sem á almennt við um fyrirburafæðingar má vel hugsa sér á blaði sem fræðslu fyrir verðandi foreldra.

Með kveðju,

Jóna Dóra Kristinsdóttir,
ljósmóðir Miðstöð mæðraverndar,
4. febrúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.