Framhöfuðstaða eða ekki?

18.09.2008

Komið þið sælar og takk fyrir góðan og gagnlegan vef.

Tengdadóttir mín er erlend og skilur ekki íslensku. Hún er komin á tíma með sitt fyrsta barn og biður mig að spyrja hvort hægt sé að sjá í sónar hvort barnið sé rétt skorðað. Hún veit að barnið er skorðað með höfuðið niður í mjaðmagrind en hvort það er bakhöfuðstaða eða framhöfuðstaða veit hún ekki. Er hægt að sjá þetta með einhverjum hætti, eða er höfuð barnsins á hreyfingu þrátt fyrir að það sé skorðað.

Bestu þakkir
Komdu sæl

Það hefur engan tilgang að skoða það í sónar hvort barnið snúi rétt eða sé í framhöfuðstöðu því mikill meirihluti barna sem eru í framhöfuðstöðu í byrjun fæðingar snúa sér í fæðingunni og koma út á réttan hátt.

Bestu kveðjur og takk fyrir hvatninguna.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
17. september 2008.