Æðahnútar - Æðaslit

15.04.2008

Sælar.

Ég hef ekkert fundið um æðarhnúta eða æðaslit hérna á vefnum. Málið er að ég er á annarri meðgöngu og er farin að sjá svona æðahnút eða slit veit ekki hvort þetta er. Mig langar að vita hvað er sem veldur þessu? Er hægt að fyrirbyggja þetta eitthvað, eða eru þið með einhver ráð við þessu. Einnig vildi ég vita hvort það væri hægt að laga þetta eftir barnsburðinn? Ég þakka fyrir frábæran vef hérna hjá ykkur og vona að ég fái einhver svör. Langar svo að sýna leggina í sumar.

Kveðja, Æðaflækjan.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Æðahnútar stafa af auknum þrýstingi frá leginu á æðarnar sem liggja frá grindinni.  Æðaveggirnir sem eru slakari á meðgöngunni vegna áhrifa frá prógesterón hormóninu, gefa meira eftir og álag á æðalokurnar eykst. Æðahnútar geta komið í ljós á fótum, á skapabörmum og við endaþarm (gyllinæð). Til eru krem sem draga úr einkennum vegna æðahnúta og stuðningssokkar sem dregið geta úr einkennum og óþægindum í fótleggjum.  Einnig er gott að liggja með púða undir fótleggjum og forðast langar kyrrstöður og setur. Gott er að gera léttar fótaæfingar, svo sem að lyfta sér upp á tábergið og hreyfa fætur í hringi um ökklann. Það eykur blóðflæðið og dregur úr álagi.
Æðahnútar sem koma fram á meðgöngu dofna oftast eftir fæðingu og getur það tekið um þrjá mánuði.  Síðan er hægt að laga æðahnúta með skurðaðgerð.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. apríl 2008.