Frunsuplástur

13.05.2008

Ég á það til að fá frunsur á varirnar og lenti einmitt í því í dag. Ég er komin 23 vikur á leið en eins og ég hef vanalega gert þegar ég fæ frunsu, skellti ég á mig Compeed frunsuplástri. Ég var ekki fyrr búin að setja hann á en ég fór að hugsa að þetta mætti kannski ekki. Nú finn ég engar upplýsingar um svona plástur og er búin að henda miðanum sem fylgdi pakkanum. Hafið þið eitthvað heyrt um að plásturinn geti haft áhrif á fóstrið?


Ekki hafa verið gerðar neinar rannsóknir um notkun frunsuplásturs á meðgöngu og áhrif hans á fóstur þungaðra kvenna. Því er ekki hægt að mæla með notkun hans á meðgöngu þar sem ekki er vitað hvort hann hafi áhrif á fóstur. Ég ráðlegg þér því að sleppa notkun frunsuplásturs meðan á meðgöngunni stendur.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. maí 2008.