Æðahnútar - Hirudoid

12.03.2011

Sælar og takk kærlega fyrir vefinn.

Núna á ég von á mínu þriðja barni og er komin inní viku 20. Ég hef ætíð barist við æðahnúta, þetta er í fjölskyldunni, fór einu sinni í aðgerð áður en ég átti börnin mín. Versnaði við báðar fyrri meðgöngur en er sérstaklega slæm núna. Hef notað kremið Hirudoid og það reynst mér vel. Núna var ég að taka eftir að hnútarnir leita uppá við og öðru megin eru þeir komnir alveg upp við skapbarmana. Frekar óþægilegt. Má nota Hirudoid alveg upp við skapbarmana á æðahnúta? Á ég í meiri hættu að fá gyllinæð, er það tengt æðahnútum. Er líka að nota stuðningssokka upp að hnjám. Er eitthvað annað sem að ég gæti verið að gera gagnlegt?

Með von um skjót svar og fyrirfram þökk, ein áhyggjufull.


Sæl og blessuð!

Hirudoid kremið má ekki komast í snertingu við slímhúð svo það þarf að fara varlega í að nota það upp við skapabarmana. Þú ættir að ráðfæra þig við lækni um þetta.

Því miður er það þannig að þeir sem hafa tilhneigingu til að fá æðahnúta hafa líka meiri tilhneigingu til að fá gyllinæð svo þú ættir að reyna að koma í veg fyrir hægðatregðu sem getur ýtt undir myndun gyllinæðar, sjá t.d. þessa fyrirspurn.

Svo koma nokkur ráð sem geta dregið úr frekari myndun æðahnúta

  • Regluleg hreyfing, t.d. ganga. Þetta bætir blóðflæði í fótunum og styrkir blóðrásarkerfið.
  • Forðast að standa of lengi.
  • Hvíla sig reglulega með tærnar upp í loft (sérstaklega eftir að staðið er lengi)
  • Forðast of mikla þyngdaraukningu
  • Klæðast þægilegum fötum og skóm sem ekki þrengja of mikið að
  • Ekki krossleggja fætur þegar setið er

Vona að þetta hjálpi eitthvað.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. mars 2011.