Fyrirsæt fylgja aftur?

12.01.2009

Sælar.

Mig langaði að vita hvort þið hafið einhverja vitneskju um hversu miklar líkur eru á fyrirsætri fylgju í annarri meðgöngu ef það hefur verið svo líka í þeirri fyrstu? Ég lenti í á minni fyrstu meðgöngu að fylgjan var alveg fyrir á afturvegg og lenti í bráðakeisara komin 34 vikur og 4 daga.Endaði á gjörgæslu og barnið mitt á hágæslu á vöku. Svo var meðgangan ekki góð, var með stöðuga samdrætti og verki frá 18 viku, blæddi nokkrum sinnum, var stoppuð af 2 sinnum og já þar fram eftir götunum. Þetta situr dáldið í manni skiljanlega og þá aðallega hræðslan við að fylgjan verði fyrir aftur. Mér skilst nefnilega að það sé mjög óalgengt að hún sé fyrir með fyrsta barn. Algengara með annað eða þriðja. Alla vega þá erum við að fara að reyna við okkar annað barn og hlakkar mér til og vona að það takist fljótt .En mig langar samt að heyrafrá ykkur hversu algengt þetta er semsagt.

Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð!

Já það er rétt að það er ekki algengt að vera með fyrirsæta fylgju á fyrstu meðgöngu. Helstu áhættuþættir fyrir fyrirsætri fylgju er fyrri keisaraskurður, aðgerðir á legi, reykingar og fjölburaþungun. Áhættan eykst með hækkandi aldri móður og fjölda meðganga. Talað er um að fylgjan sé fyrirsæt í 1 af hverri 200 þungunum þannig að almennt er tíðnin um 0,5%. Þú ert í raun með fleiri áhættuþætti núna en þú varst með síðast en samkvæmt þeim heimildum sem ég fann þá eru aðeins um 2-3% líkur á því að kona sem hefur verið með fyrirsæta fylgju fái aftur fyrirsæta fylgju á seinni meðgöngu.

Vona að allt gangi vel hjá þér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. janúar 2009.

 

Heimild: Kay, H.H. Placenta Previa and Abruption, in Scott, J.R., et al. (ritstj.): Danforth's Obstetrics and Gynecology, Ninth Edition, Philadelphia, Lippincott Williams & Wilkins, 2003, bls. 365-379.