Spurt og svarað

22. maí 2008

Fyrirvaraverkir - komin 21 viku

Er eðlilegt að fá frekar sterka fyrirvaraverki fyrir 20 vikur. Er komin 21 viku núna með annað barn og fæ svona verki 2-6 sinnum á sólahring. Kúlan harðnar og ég fæ verki yfir magann og í bakið. Alveg eins og þegar ég fékk hríðar þegar ég átti fyrir 7 árum. Þetta stendur yfir í 1-2 mínútur í einu og er mjög óþægilegt. Mig langaði bara að athuga hvort þetta væri eðlilegt. Sá hérna í einu svarinu að það sé eðlilegt að fá samdrætti en skildist að það væri ekki eðlilegt að fá þá með verkjum.

Takk annars fyrir frábæran vef


Sæl og blessuð!

Samdrættir án verkja (kúlan verður hörð án þess að verkir fylgi) eru eðlilegir á meðgöngu en þeir ættu ekki að vera fleiri en fjórir á klukkutíma. Tíðir verkjalausir samdrættir geta verið undanfari fæðingar og þess vegna ber að taka það alvarlega þegar meðgöngulengd er ekki orðin fullar 37 vikur. Algengt er að konur finni fyrir samdráttum allt frá 20. viku en sumar konur finna þó lítið sem ekkert fyrir þessum samdráttum. Samdrættir aukast yfirleitt eftir því sem líður á meðgönguna og flestar konur finna fyrir samdráttum á síðustu vikum meðgöngunnar.  Of tíðir samdrættir geta verið skilaboð frá líkamanum um að konan eigi að hvíla sig og stundum er þörf á að drekka meiri vökva. Öllu jöfnu er ekki eðlilegt að finna fyrir verkjum samfara samdráttum svona snemma á meðgöngu. Þú ættir að taka því mjög rólega núna og sjá hvernig líkaminn bregst við. Ef þú finnur fyrir fleiri en 4 samdráttum á klukkutíma, verkjum með samdráttunum, þrýsting niður í grind, „túrverkjum“ eða ef blóðugt slím kemur niður skaltu hafa samband við ljósmóður eða lækni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.