Spurt og svarað

29. september 2015

Dulið fósturlát - snemmsónar

Sælar og takk fyrir fróðlegan vef. Mig langaði til að spyrja hvers vegna snemmsónar er ekki hluti af venjulegu mæðraeftirliti heldur val (og ekkert endilega hvatt til þess)? Er það ekki besta leiðin til að greina utanlegsfóstur? Ég varð fyrir stuttu ólétt í fyrsta sinn og var á báðum áttum hvort ég ætti að fara í snemmsónar. Ég fékk það á tilfinninguna (við lestur á alls kyns vefsíðum) að það væri í raun óþarft (og í raun hálfgerð peninga og tímaeyðsla) en ákvað samt að panta mér tíma enda mjög spennt og þá biðin í næsta læknatíma tengdum óléttunni styttri (ég er yfirleitt þolinmóð manneskja en hafði ekki mikla þolinmæði fyrir þessari bið). Ég fór þegar ég var komin u.þ.b. 7 vikur í snemmsónar en læknirinn sagði að annað hvort væri ég komin tæplega 6 vikur eða e-ð væri að. 10 dögum seinna kom ég svo aftur í snemmsónar og þá var ljóst að fóstrið var látið en fóstursekkurinn hafði stækkað. Ég var með bullandi óléttueinkenni og alls engar blæðingar og svo hélst þar til ég tók Cytotec töflur þá komin 9 vikur og 4 daga. Það er auðvitað ekki hægt að segja hvað hefði gerst á næstu rúmlega 2 vikum (hvort ég hefði áfram verið með öll einkenni óléttu og engar blæðingar) en hefði ég ekki farið í snemmsónar hefði mig aldrei grunað að fóstrið væri látið því líkaminn minn hélt enn að ég væri ólétt (engar blæðingar og óléttueinkenni á fullu). Það getur verið að tilfelli mitt sé mikið sértilfelli (hef ekki hugmynd um líkur) en ef ég hefði komist að því á 12 viknasónar að ekki væri allt með felldu hefði þetta verið mun meira áfall. Núna vissi ég a.m.k. á 7 viku að það gæti verið e-ð að og það var staðfest rétt fyrir 9 viku. og þá gat ég líka losnað fyrr við óþarfa óléttueinkennin. Verði ég svo heppin að verða ólétt aftur mun ég ekki hugsa mig tvisvar um að fara í snemmsónar og með þessa reynslu finnst mér svo skrýtið að það sé ekki hvatt til að fara í snemmsónar eða af hverju snemmsónar er ekki hluti af mæðraeftirliti. Geturðu útskýrt það fyrir mér? 

Heil og sæl, þegar á að velja hvað á að vera inni í föstu eftirliti þarf alltaf að vega og meta hvað er ganglegt fyrir flesta og hvað ekki, semsagt hvað borgar sig að gera. Nú eru snemmfóstulát alls ekki svo sjaldgæf en dulin fóstulát eins og þú lentir í eru sjaldgæfari. Oftast nær fer að blæða og verkir gera vart við sig svo að ekki fer á milli mála hvað er að gerast. Einnig er það spurning um tímann, hvenær er rétt að gera rannsóknina. Ef að kona fer í sónar komin 7 vikur og allt er í lagi, þá getur fósturlátið allt eins orðið við 8 vikur eða 9 vikur. Í raun er útilokað að finna einn góðan tíma sem nær að grípa flest snemmfóstulát fyrr en um 12 vikur. Ég vona að þetta útskýri málið fyrir þér. Gangi þér vel á komandi meðgöngum.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.