Spurt og svarað

14. febrúar 2007

Gagnsemi mónitora

Nú hef ég verið undir auknu eftirliti á meðgöngu vegna meðgöngukvilla.Mér var tjáð að ég ætti að mæta í mónitor skoðun aukalega. Væntanlega verður gangsett hjá mér fæðing fyrir viku 38. En svo heyrði ég að mónitor sé ekki endilega eitthvað sem segir mér neitt um heilsufar fóstursins. Til hvers er þá mónitor skoðun? Ég er að skrá hjá mér hreyfingar og almenna líðan núna síðustu vikuna og allt lítur vel út eins og er en betra að fylgjast með ekki satt. :o)

Með bestu kveðju og takk fyrir frábæran vef.


Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Það er margt til í því sem þú og segir og kannski svolítið erfitt að svara spurningunni.

Það hefur verið svolítil ofurtrú á gagnsemi mónitora en sennilega er gagnsemi þeirra minni en talin var. Nú hafa niðurstöður rannsókna t.d. sýnt að það að taka svokallað komurit (mónitorrit í upphafi fæðingar) hjá heilbrigðum eðlilegum konum í eðlilegri fæðingu bætir ekki útkomu móður né barns og ýtir frekar undir inngrip í fæðingu. Í þeim tilvikum er því talið betra að hlusta reglulega hjartslátt barnsins í fæðingu og sleppa því að nota mónitor. Það gildir hins vegar annað þegar einhverjir áhættuþættir eða sjúkdómar eru til staðar, annað hvort hjá móður eða barni. Mónitorrit getur sagt til um það hvernig barninu líður akkúrat þegar ritið er tekið en hefur ekki forspárgildi langt fram í tímann. Það er því mikilvægt fyrir þig að fylgjast með hreyfingum barnsins en þú átt að finna fyrir 10 hreyfingum á 2 klukkustundum.

Ég vona að allt gangi vel hjá þér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. febrúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.