Spurt og svarað

22. febrúar 2008

Gallstasi

Langar að byrja á að þakka ykkur fyrir fróðlegan vef. Ég er með fyrirspurn sem snýst um Gallstasa (þegar of mikið magn gallsýra er í blóði).

Ég finn lítið um þetta á netinu en hef þó fundið þetta svar á vefnum hjá ykkur. Það sem mig langar að vita til viðbótar við þetta er:

  1. Eru alltaf lögð drög að fæðingu við 37 vikur, óháð því hvert gildi gallsýra í blóði er?
  2. Nú er talað um að gallsýrur í blóði eigi ekki að fara yfir gildið 50,
    hvað þýðir það? Er það fyrst þá sem þetta getur farið að hafa áhrif á fóstrið (svo sem heilablæðing eða fósturlát)? Er allt upp að 50 „save“?
  3. Geta gallsýrur í blóði hækkað mjög hratt? Gætu þær til dæmis farið úr 20 í 50 á viku án þess að konan finni fyrir því?
  4. Kallast það áhættumeðganga að vera með hækkaðar gallsýrur í blóði?

 


Komdu sæl, „Kláðamús“!

Mér sýnist á spurningum þínum, að þú sért að upplifa gallstasa á meðgöngunni. Það er fylgst sérstaklega með konum, sem hafa þá sjúkdómsgreiningu og kallast þá meðgangan áhættumeðganga. Eins og þú hefur kannski lesið getur gallstasi á meðgöngu verið misalvarlegur og oftast er hann vægur. Það eru líkamleg einkenni frá sjúkdómnum og mælingar á gallsýrum í blóði, sem ákvarða það og læknir ákveður, hversu oft mælingar fara fram. Konan þarf líka að láta fagfólk í meðgönguverndinni vita strax ef breyting verður á einkennum t.d. ef kláðinn versnar. Það fylgist oftast að s.s. því meiri einkenni því hærra gildi gallsýra mælast í blóðinu. En víkjum okkur að spurningunum þínum.

  1. Nei, það eru ekki alltaf lögð drög að fæðingu við 37vikna meðgöngu. Það fer eftir gildi gallsýra í blóðinu og svo einkennum. Í svæsnum tilfellum er það gert við 37-38 vikna meðgöngu en í vægum tilfellum er beðið þar til a.m.k. 40 vikna meðgöngu er náð.
  2. Það er talað um, að gildi upp að 55 mikromol/L vísi á vægan sjúkdóm en gildi > 55 hafi í sér meiri hættu fyrir fóstur og því meiri, sem gildið er hærra.
  3. Þarft að spyrja lækninn þinn um þetta atriði en snögg hækkun veldur yfirleitt hratt vaxandi einkennum líka.
  4. Já.

Hikaðu ekki við, að bera vangaveltur þínar upp við fagfólkið, sem sinnir þér í meðgönguverndinni og gangi þér vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
22. febrúar 2008.

Sjá einnig upplýsingar um gallstasa á vef Miðstöðvar mæðraverndar.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.