Spurt og svarað

01. nóvember 2012

Æðahnútar og fæðing

Ég er gengin 33 vikur af mínu öðru barni, fyrra barn var 6 mánaða þegar ég varð ólétt aftur og var ekki búin að jafna mig af slæmri grindargliðnun og er núna rúmliggjandi með samdrætti, grindargliðnun og mjög slæma æðahnúta, ég verð gangsett á viku 38 af þessum ástæðum og hjartagalla. Í seinustu fæðingu var ég með æðahnúta í kringum leggöng og á skapabörmum en þeim fylgdi ekkert mikill sársauki, bara smá þrýstingur eftir kynlíf. Núna hinsvegar finn ég fyrir rosalegum sársauka í æðahnútunum, hef ekki getað stundað kynlíf síðan á viku 25 og tárast stundum við það eitt að pissa útaf sársauka og þrýstingi. Ég þori ekki að fæða því ég get ekki með neinu móti farið að rembast, ég get ekki farið á klósettið án þess að tárast og vera þar í um það bil hálftíma að reyna að rembast en sársaukinn er of mikill. þegar ég hugsa um fæðinguna kvíðir mér rosalega fyrir og ég efast oft stórlega um að ég geti þetta. Nárinn, barmarnir og svæði þar í kringum eru helmingi stærri og þrútnari en venjulega og ég get ekki einu sinni skolað mig þarna niðri í sturtu. Ég vona innilega að þið birtið þráðinn minn og svarið mér því það er lítið sem ekkert hlustað í mæðraverndinni minni og mig vantar rosalega mikið svör. Síðan gott að mynnast á það að ég er að nota kalda bakstra tvisvar á dag, stend ekki lengi og sit ekki lengi í einu, nota teygjusokkabuxur og hef prufað öll ráð í bókinni.Sæl!
Mér þykir leitt að heyra af slæmri líðan þinni á meðgöngunni. Æðahnútar á skapabörmum eru tiltölulega algengir á meðgöngu og eru venjulega ekki til mikilla vandræða hvort sem er á meðgöngu eða í fæðingu. Þeir valda sem betur fer ekki alltaf svona miklum sársauka.
Ráðin sem þú ert að nota eru almenn og einmitt þau sem við mælum með og þau virka vel í flestum tilfellum.
Þú nefnir að það sé ekki hlustað á þig í mæðraverndinni en nefnir ekki hvort ljósmóðir eða læknir hafi skoðað æðahnútana og fylgst með þeim á meðgöngunni. Þú mátt endilega senda aðra fyrirspurn með þeim upplýsingum og láta netfangið þitt fylgja með.Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
1. nóvember 2012
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.