Geislavirkt joð

15.11.2010

Þannig er mál með vexti að ég er að vinna mikið í kringum fólk og það var ein kona hérna hjá mér í dag sem var með ofvirkan skjaldkirtil og var að fara í annað skipti á stuttum tíma til að fá geislavirkt joð. Hún mátti ekki fara út í tvo daga en fékk leyfi til að koma til mín frá lækninum sínum. Ég hef alveg stórar áhyggjur um að það hafi eitthvað komið fyrir mig eða barnið mitt, er gengin 8 vikur. Ég vissi ekkert af því að hún hafi verið í þessu fyrr en eftir á.

Getið þið gefið einhverja upplýsingar um þetta. Það er rosalega lítið um geislavirkt joð á netinu.

Ein áhyggjufull.


Sæl og blessuð!

Það kemur ekki fram hversu langt var liðið frá meðferðinni og þar til þið hittust en það virðist skipta máli svo og hversu lengi þið voruð í návist hvor annarar og hversu nálægt. Samkvæmt upplýsingabæklingi Landspítalans er fólki ráðlagt að forðast nána snertingu við aðra, og þá sérstaklega börn og ófrískar konur fyrstu 4-5 dagana eftir meðferð. Einnig er fólki ráðlagt að leitast við að hafa um tveggja metra fjarlægð eða meira milli sín og annarra, og reyna að vera ekki lengi í návist sama einstaklings. Fólki sem vinnur með börnum eða ófrískum konum er ráðlagt að taka veikindafrí í eina viku.

Í bæklingnum sem ég vísa í eru nánari upplýsingar og svo símanúmer á Ísótópastofu Landspítalans ef þig vantar frekari upplýsingar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15.nóvember 2011.