Getur ástarsorg valdið fósturláti?

06.08.2008

Hæ, hæ!

Ég var að velta því fyrir mér hvort að ástarsorg gæti valdið fósturláti? Ég er í ástarsorg og er komin 11 vikur á leið og fór allt í einu að hugsa hvort að sorgin gæti gert mér og fóstrinu eitthvað illt. Er stundum með hraðan hjartslátt og illt í maganum útaf sorginni.

Með von um svar og takk fyrir frábæran vef.

Kveðja, ein í ástarsorg.


Sæl og blessuð!

Leitt að heyra hvernig þér líður. Að ganga í gegn um ástarsorg er svo sannarlega erfitt og það hlýtur að vera alveg sérstaklega erfitt að vera í ástarsorg á fyrsta hluta meðgöngu. Ég held þó að þessi líðan geri fóstrinu ekki illt og líkur á fósturláti ættu ekki að vera meiri þrátt fyrir þína vanlíðan.

Reyndu að hugsa eins vel um þín eigin heilsu og mögulegt er með því að borða holla fæðu og hreyfa þig. Leitaðu eftir því að vera í félagsskap sem þér líður vel í og leitaðu eftir stuðningi hjá fólki sem þú treystir.

Ég vona að þú jafnir þig á þessu og að allt gangi vel hjá þér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2008.