Spurt og svarað

26. ágúst 2008

Getur meðgöngusykursýki fest í manni?

Sæl!

Mig langar að eignast annað barn núna fljótlega en ég var að spá. Ég var með skert sykurþol á síðustu meðgöngu en ég var 64 kg þegar ég varð ófrísk og þyngdist upp í 75 kg um miðja meðgöngu og greinist mánuði síðar með sykuróþolið. En núna er ég ekki nema 53-54 kg (160 cm) á hæð, heldur þú að ég megi búast við sama vanda á næstu meðgöngu? Það er engin saga um sykursýki í ALLRI ættinni. Ég hef heyrt svo margar sögur af sykursýki á meðgöngu og að maður losni ekki við hana og svoleiðis!

Getur meðgöngusykursýki fest í manni?


Sæl!
 
Samkvæmt heimildum eru um 35% líkur á að meðgöngusykursýki endurtaki sig í næstu meðgöngu og er þá tekið með í myndina að konan hafi þyngst á milli meðgangna. Meðgöngusykursýki er talsvert líklegri hjá konum í ofþyngd. Þegar þú varðst ófrísk af barninu þínu varst þú á mörkunum að vera í ofþyngd (með líkamsþyngdarstuðulinn 25) nú ertu hins vegar í kjörþyngd (líkamsþyngdarstuðullinn er 21) og áhættan því talsvert minni en áður. Það eru meiri líkur hjá eldri konum en yngri á að greinast með meðgöngusykursýki og meiri líkur hjá þeim sem eiga fleiri börn en færri.
 
Ég tel þú eigir ekki endilega að vera aftur í sömu áhættu ef tekið er tillit til þyngdar þinnar fyrir þungun. Til þess að draga úr líkunum er gott fyrir þig að huga vel að mataræðinu og stunda holla hreyfingu.
 
Konur sem greinast með meðgöngusykursýki eru líklegri til þess að þróa með sér svokallaða áunna sykursýki (týpu 2) seinna á ævinni. Það tengist þó oftar en ekki ofþyngd og hreyfingarleysi.

Með kærri kveðju,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
26. ágúst 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.