Spurt og svarað

05. janúar 2009

Getur verið að ég sé með utanlegsfóstur?

Hæ, hæ og takk fyrir góðan vef!

Ég er komin tæpar 7 vikur og hef verið með mjög óþægilega og stöðuga verki í allan dag. Þeir eru á milli mjaðmabeinanna og þá aðeins vinstra megin. Ég finn eiginlega bara fyrir þeim þegar ég hreyfi mig og minna fyrir þeim þegar ég er með fæturnar upp í loft. Ef ég þrýsti með puttunum á milli mjaðmabeinanna finn ég bara til vinstra megin. Ég er ekki búin að vera í neinum vandræðum með hægðir eða neitt svoleiðis. Þetta er eins og stingur sem kemur og fer. Í dag þá leið næstum því yfir mig tvisvar sem stuttu millibili, mér varð mjög heitt, ég svitnaði á enninu og lagðist í gólfið. Þegar ég náði að jafna mig þá varð mér svo ískalt að ég skalf? Ég veit að stelpur verða yfirnáttúrulega „paranoid“ þegar þær eru óléttar en ég fer ekki í snemmsónar fyrr en eftir rúma viku og ég er töluvert stressuð og mikið að hugsa um þetta. Getur verið að ég sé með utanlegsfóstur?

Með fyrirfram þökk fyrir svar, ein stressuð.


Sæl og blessuð!

Það er alveg möguleiki á að þú sért með utanlegsfóstur þar sem þú ert með mjög óþægilega verki (eins og þú lýsir) í móðurlífinu en það er eitt af einkennunum. Þegar um er að ræða utanlegsfóstur þá festist frjóvgað egg utan legsins, oftast í öðrum eggjaleiðaranum. Konur finna fyrir einkennum þungunar eins og um eðlilega þungun sé að ræða, s.s. að tíðablæðingar byrja ekki, brjóstaspennu og ógleði. Þegar fósturvísirinn fer svo að stækka í eggjaleiðaranum þá koma verkir og yfirleitt blæðing. Þetta gerist yfirleitt þegar meðgöngulengd er 5 til 7 vikur en getur þó gerst þegar meðgöngulengd er allt að 10 vikur.

Ef þessir verkir eru enn til staðar og þú hefur ekki nú þegar leitað til læknis þá ættir þú að gera það sem fyrst því blæðing vegna utanlegsfósturs getur verið lífshættuleg fyrir konuna og því mikilvægt að greina vandamálið.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.