Getur þungunarpróf verið jákvætt þó ég sé ekki þunguð?

30.05.2011

Góðan daginn!

Ég tók tvö óléttupróf daginn eftir að ég átti að byrja á túr, sem var fyrir 4 dögum síðan, og þau voru bæði jákvæð. Ég hef ekkert byrjað á blæðingum en er þó búin að vera með einskonar túrverki í viku núna. Þeir eru þó að lægja aðeins. Er möguleiki á að þungunarprófin hafi getað verið jákvæð þó svo að ég sé ekki þunguð. Þetta yrði þá mitt fyrsta barn og ég hef smá áhyggjur af þessu öllu saman :)


Sæl!

Þungunarpróf eru vissulega ekki 100% en það er sjaldgæft að þungunarpróf gefi falskt jákvætt svar. Þungunarpróf mælir magn meðgönguhormónsins hCG í þvagi og það er ekki til staðar ef ekki hefur orðið þungun. Það getur vel verið að þú finnir fyrir verkjum sem líkjast túrverkjum í byrjun þungunar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. maí 2011.