Þungun eftir að koparlykkjan var fjarlægð

21.02.2013

Takk fyrir góðan og upplýsandi vef.

Ég er frekar ringluð yfir hversu langt ég er gengin og hvenær ég ætti að panta tíma í mæðravernd, vonandi getið þið hjálpað mér að finna út úr því. Ég fékk jákvætt þungunarpróf 19. febrúar eftir að koparlykkjan var fjarlægð 30. janúar ég var búin að vera með hana í c.a. 1,5 ár en fyrir á ég eitt barn sem nú er 2 ára. Fyrsti dagur seinustu blæðinga var 29. des. en ég er með frekar langan og óreglulegan tíðarhring, örugglega alveg upp í 40-50 daga án þess að vera viss. Samkvæmt dagatalinu mínu var möguleiki á getnaði 27. jan, 31. jan, 1. feb, 3. feb og 7. feb, getið þið reiknað út frá þessu hversu langt ég er c.a. gengin?

Kærar þakkir.

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Miðað við að fyrsti dagur síðustu blæðinga hafi verið 29.des þá ættir þú að vera komin 12 vikur þann 22.mars og því væri gott að koma þá í mæðravernd, væntanlegur fæðingardagur ætti að vera 4.október. Hins vegar ef þú ert með 45 daga tíðarhring þá gæti væntanlegur fæðingardagur verið u.þ.b. 17 dögum seinna eða 21.október og þá gætir þú verið komin 12 vikur 8.apríl. Ég myndi ráðleggja þér að hafa samband við lækni sem gæti gert sónarskoðun hjá þér til þess að meta meðgöngulengd. Þá gæti verið gott fyrir þig að fá tíma hjá lækni u.þ.b. viku af mars eða í kringum 8.mars og meta svo eftir þann tíma hvenær þú getir komið í mæðravernd við u.þ.b. 12 vikur. Vonandi hjálpar þér þetta eitthvað og gangi þér vel.

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir,
21. febrúar 2012