Spurt og svarað

26. maí 2008

Geðheilsa á meðgöngu. Meðgönguþunglyndi?

Ég á von á mínu öðru barni og finn fyrir tilfinningum sem ég skammast mín mikið fyrir. Allt í einu finnst mér þetta allt svo ógnvekjandi og ég get suma daga ekki hugsað mér að vera bundin aftur yfir ungabarni. Eldra barnið okkar var magakveisubarn og grét nánast allan sólarhringinn í marga mánuði og í kjölfarið fékk ég alvarlegt fæðingarþunglyndi. Getur verið að þessi fyrri reynsla valdi þessari líðan minni núna?

Ég finn ekki til tilhlökkunar, einungis kvíða og sektarkenndar. Ég skammast mín fyrir að vera ekki með neitt tilbúið fyrir barnið en væntanlegur fæðingardagur nálgast óðfluga. Það er engu líkara en ég sé að forðast þessa hugsun með því að sinna ekki því sem snýr að barneignum. Ef ég hugsa út í væntanlega fæðingu verður mér óglatt af kvíða og áhyggjum og ég óttast það að ég verði ekki góð móðir fyrir tvö börn. Ég skammast mín svo mikið að ég hef ekki treyst mér til að tala um þetta við neinn en nú held ég að ég sé að verða komin á hættulegan stað og óttast það að ég nái ekki að rífa mig upp úr þessum hugsunum á eigin rammleik.

Hvað er til ráða? Er þetta eðlilegt?

Mér finnst óléttar konur aldrei tala um svona hluti og finnst ég svo afbrigðileg :(


Sæl

Leiðinlegt er að heyra hvað þér líður illa. Miðað við fyrri sögu þína, erfitt ungbarn og fæðingarþunglyndi, er full ástæða nú fyrir þig að leita þér aðstoðar. Meðgönguþunglyndi er til staðar hjá sumum konum og ég myndi mæla með því að þú ræðir þetta við þína ljósmóður og lækni í mæðravernd. Þau ættu að geta bent þér á einhverjar úrlausnir eða vísað þér á aðra fagaðila sem gætu hjálpað þér. Ég skal hinsvegar fullvissa þig  um að þú ert ekki eina konan í heiminum sem berð þessar tilfinningar, þannig að ekki ásaka sjálfa þig, þú ert nú þegar búin að sýna mikið hugrekki að senda þessa fyrirspurn og þar með taka fyrsta skrefið í að vinna með þessa líðan.
Með von um betri líðan fyrir þína hönd.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26.maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.