Spurt og svarað

30. nóvember 2007

Glucophage á meðgöngu

Komiði sælar.

Mig langar að vita nokkuð um offitu. Ég er 125 kg og er ófrísk komin 9 vikur er með PCOS og tek Glucophage, 3 töflur 500 mg á dag. Er það í lagi? Þegar ég komst að því að ég væri ófrísk þá hætti ég að borða allt nammi en læt eftir mér einn bita ef löngunin er mikil þá bara einn bita það virðist duga svo hef ég farið að borða mikið af vínberjum, ananas þá ferskan, epli og melónur þetta á ég alltaf til í ísskápnum þegar þessi sykurlöngun kemur. Einnig er ég hætt að drekka allt gos. Ég er bara svo ofboðslega hrædd um að missa fóstrið útaf þyngd.Hef misst fóstur nokkuð oft en alltaf á 5-6.viku núna er ég komin 9 vikur og ég þori bara ekki að vera ánægð er með stanslausar áhyggjur. Ég á einn son sem er 14 ára sú meðganga gekk eins og í sögu þá var ég í kjörþyngd fæðingin tók 3 tíma frá fyrstu hríðum þar til hann var komin.

Kveðja, Bolla.


Sæl og blessuð!

Þú þarft að ræða við lækni í sambandi við lyfjainntöku á meðgöngu þar sem það er mikilvægt að meta hugsanlega áhættu af lyfjainntöku til móts við ávinning. Það er best fyrir þig að ræða við lækninn sem ávísaði þessu lyfi eða heimilislækninn þinn. Samkvæmt upplýsingum um Glucophage í Sérlyfjaskránni eru engar marktækar faraldsfræðilegar upplýsingar til en dýrarannsóknir benda ekki til skaðlegrar verkunar m.t.t. þungunar, myndunar fósturvísa eða fósturs, gang fæðingar eða þroska ungbarna.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. nóvember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.