Spurt og svarað

09. mars 2012

Goji ber á meðgöngu

Eru Goji ber ekki bara holl og góð eða þarf maður að fara varlega í þau á meðgöngu?


Mikið hefur verið talað um Goji ber og hollustu þeirra. Goji ber hafa verið notuð til lækninga í þúsundir ára. Þau innihaldið mikið af andoxunarefnum og styrkja ónæmiskerfið. Berin eru einnig talin gefa mikla orku og draga úr þreytu, matarlyst og ofáti. Berin eru einnig talin stuðla að betri svefni og aukinni kynhvöt. Goji ber innihalda um 500 sinnum meira C-vítamín en appelsínur, mjög hátt magn af karótíni, fjölda B-vítamína og E-vítamín, 18 amínósýrur og mikið af steinefnum, s.s. sink, járn, kopar, kalk, selen og fosfór.

Eins og áður segir hafa berin verið notuð í lækningaskyni, m.a. við morgunógleði án þess þó að fyrir liggi rannsóknir um gagnsemi og öryggi. Fæða sem notuð er í lækningaskyni getur mögulega haft góð áhrif á ákveðna líkamsstarfsemi en á sama tíma raskað annarri líkamsstarfsemi.  Þegar skoðuð eru svör um öryggi Goji berja á meðgöngu á erlendum vefsíðum koma fram misvísandi upplýsingar. Á sumum síðum er hvatt til neyslu Goji berja á meðgöngu vegna hollustu þeirra á meðan aðrar vefsíður vara við neyslu þeirra. Á síðunni Livestrong.com er varað við neyslu Goji berja á meðgöngu, bæði vegna hugsanlegrar hættu á fósturláti og aukinni blæðingarhættu hjá konum sem nota blóðþynningarlyf á meðgöngu.

Mér vitanlega liggja engar rannsóknir fyrir um skaðsemi eða öryggi þess að neyta Goji berja á meðgöngu. Ég held þess vegna að það sé rétt að fara varlega í Goji berin á meðgöngu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,

ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. mars 2012.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.