Spurt og svarað

15. febrúar 2008

Grapefruit Seed Extract á meðgöngu

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Vitið þið hvort það sé óhætt að taka inn Grapefruit Seed Extract á meðgöngu. Er komin 29 vikur á leið og er að hellast í mig kvef og þar sem ég er með sögu um lungnavesen, astmi, lungnabólgur og þess háttar vill ég reyna að komast fyrir þetta sem fyrst og hefur GSE reynst mér ágætlega við að fyrirbyggja kvef.

 

Með kærri þökk.

Kveðja, María.

 

Sæl María

Grapefruit Seed Extract er vökvi sem unninn er úr greipávextinum. Því hefur verið haldið á lofti að GSE sé hrein náttúruafurð sem geti unnið gegn bakteríum, veirum og sveppum.  Þá hefur því verið haldið fram að GSE geti gagnast við ýmis konar kvillum s.s.  exemi, bólum, særindum í hálsi, sveppasýkingu á fótum, kvefi og ýmis konar meltingarkvillum. Enn hefur þó ekki verið sýnt fram á þessa gagnsemi með rannsóknum.  Við rannsóknir á efninu hefur hins vegar komið í ljós að rotvarnarefnum hefur verið bætt við vökvann og sumir telja að virkni efnisins sé tilkomin vegna rotvarnarefna en ekki vegna náttúruafurðarinnar sjálfrar.  Mér fannst mest sláandi að lesa um að rotvarnarefnið benzethonium chloride hefur fundist í GSE en það er alls ekki eru ætlað til inntöku.

Síðast en ekki síst þá er ekki vitað hvaða áhrif efnið hefur á fóstur eða móður á meðgöngu.

Margir telja að afurðir sem teljast hreinar náttúruafurðir séu með öllu skaðlausar en það er víst langt frá því. Vissulega geta margar náttúruafurðir haft góð áhrif á ákveðin vandamál en á sama tíma getur þessi sama afurð haft slæm áhrif á aðra starfsemi í líkamanum eða komið ójafnvægi á líkamsstarfsemina.  Það er með náttúrulyf eins og önnur lyf að það þarf að vega og meta ávinning af því að taka inn lyfið til móts við þá áhættu sem það getur falið í sér. Í þessu tilfelli finnst mér dæmið vera mjög einfalt. Í fyrsta lagi þá er ekki til lyf við kvefi og í öðru lagi þá eru of margir óvissuþættir varðandi áhættuna við lyfið.

Læt fylgja hér tengingar á þræði með nánari upplýsingar um GSE

Wikipedia

Identification of Benzethonium Chloride in Commercial Grapefruit Seed Extracts

Ef þú færð kvef þá er mikilvægt fyrir þig að fara sérlega vel með þig, láta þér ekki verða kalt.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. febrúar 2008.

Leitarorð: greipaldinkjarnaþykkni


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.