Grátur á meðgöngu

30.03.2007

Sælar og takk fyrir frábæra síðu.

Er á 20. viku meðgöngunnar og líður ágætlega. En eitt er það þó sem mig langar til að spyrja að því ég rakst ekki á það í fyrirspurnunum en það er grátur á meðgöngu. Ég er afskaplega geðgóð manneskja og alls ekki þunglynd eða vansæl á nokkurn hátt í lífinu en á meðgöngunni hef ég verið að taka ógurleg grátköst. Er þetta eðlilegt? Ég græt við minnsta tilefni og þá er ég ekki að tala um yfir sjónvarpinu eða þannig heldur bara ef eitthvað er ekki alveg nákvæmlega eins og ég hef planað þá græt ég alveg „hysterískt“. Ég hef áhyggjur af þessu og hefur þetta sérstaklega fylgt því þegar ég kemst ekki í föt sem ég á og græt ég mikið yfir því hve ég sé að fitna,hve mikið ég sé að borða og hvað mér þykir líkami minn vera að breytast mikið. Ég hef alltaf verið í kjörþyngd og fylgst vel með þyngd minni og hvað ég borða. Mér finnst ég afar stjórnlaus þessa daganna og hef áhyggjur af því að þetta gæti verið bilun eða byrjun á fæðingarþunglyndi.

Með von um svar.

Kveðja, Drífa.


Sæl Drífa og takk fyrir að leita til okkar.

Viðkvæmni og grátur eru afar algeng á meðgöngu og geta komið fram hvenær sem er á meðgöngu. Ástæðan getur verið sambland af mörgum þáttum. Fyrst og fremst eru miklar breytingar á hormónabúskap líkamans á meðgöngu sem geta valdið skapsveiflum. Einnig getur andlegt álag aukið líkurnar á skapsveiflum. Breytingin sem verður á líkamanum getur haft áhrif, einnig aðlögunin að nýju hlutverki þínu og líkama þíns. Viðkvæmnin er eðlileg að ákveðnu marki og er að öllu jöfnu fyrirbæri sem er ekki viðvarandi ástand heldur kemur og fer. Hjá einstaka konu geta skapsveiflurnar og/eða viðkvæmnin (gráturinn) orðið viðvarandi ástand sem háir konunni og leitt til kvíða eða þunglyndis. Þá er mikilvægt að ræða það við ljósmóðurina sína í mæðraverndinni sem getur bent á aðferðir til þess að takast á við vandann.

Vona að þetta svari spurningu þinni.  Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. mars 2007.