Af hverju ekki heitir pottar eftir tæknisæðingu?

03.10.2009

Af hverju er konum sem búnar eru að fara í tæknisæðingu bent á að fara EKKI í heitan pott?


Sælar!

Eftir frjósemismeðferðir, hvort sem það er tæknisæðing eða glasafrjóvgun er konum yfirleitt ráðlagt að sleppa því að fara í bað og nota heita potta í a.m.k. 2 vikur eftir meðferð. Þeim er einnig ráðlagt að sleppa mikill áreynslu. Ég hef leitað aðeins eftir upplýsingum um þetta á netinu en finn ekki beint svarið. Frjósemisferðferðir eru vissulega inngrip og því er allt viðkvæmara og brothættara. Það er líklegt að þetta hafi eitthvað að gera með hitann, þ.e. að ekki sé æskilegt að hafa of mikinn hita í kringum legið og kvenlíffærin og svo getur þetta haft eitthvað að gera með það að vatn og ef til vill bakteríur geti borist upp leggöngin og upp í legið. Eftir frjósemismeðferð þurfa margar konur að taka lyf sem sett eru upp í leggöngin þannig að ef verið er í heitum potti eða baði getur það ef til vill skemmt fyrir verkun þessara lyfja.

Vona að þetta skýri málið að einhverju leyti en ef einhver sem les þetta hefur betri skýringar þá væri gaman að heyra þær.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. október 2009.