Spurt og svarað

16. júlí 2007

Grindarbotn og næsta meðganga

Sælar ljósmæður!

Ég átti barn fyrir nokkrum vikum og hef fundið fyrir vanda útaf slöppum grindarbotni, hef hættu á að missa hægðir ef ég gæti ekki að mér og finnst erfitt að halda í mér þó ég finni ekki beint fyrir þvagleka. Ég er dugleg að gera grindarbotnsæfingar og vonast til að þetta skáni á næstu vikum. Fann mestan bata fyrst, en svo er eins og allt standi í stað núna þrátt fyrir æfingarnar. Við hjónin hugsum okkur að eignast annað barn áður en langt um líður, en nú hef ég áhyggjur af því hvernig önnur meðganga fer með grindarbotninn. Hingað til hafði ég hugsað um að bíða í 9-12 mánuði til að trufla ekki brjóstagjöfina en vonast þó til að geta haldið henni áfram á næstu meðgöngu.  En það renna á mann tvær grímur þegar hinn dýrmæti grindarbotn er í svo slæmu ástandi og ég á erfitt með á sjá fyrir mér hversu mikið ég get bætt hann með æfingum eða hve langan tíma það tekur að styrkja hann nóg fyrir aðra meðgöngu. Mér finnst erfitt að finna góðar upplýsingar um hvernig grindarbotninn bregst við þjálfun, það er alltaf talað almennt um að hann sé „slappur“ eftir fæðingu og að þetta taki „nokkurn tíma“.  Eru til einhverjar rannsóknir á hversu algengur svona skaði á hringvöðvum eða taugum er eftir fæðingu og hversu margar vikur það tekur að komast í fyrra horf?  Og er það er yfirhöfuð hægt?  Þvagleki virðist líka vera mun oftar nefndur en að missa hægðir, er það svo sjaldgæft að það komi fyrir?  Maður er feiminn að spyrja ráða þar sem þetta virðist vera hálfgert tabú.  Eins er ég forvitin um hvernig grindarbotnsskaði tengist fæðingunni, hvort það hafi áhrif að hún sé hröð eða langdregin, hvort áhaldafæðing auki líkur á skaða?  Eins hvort maður geti minnkað líkur á skaða með mismunandi stellingum í fæðingu eða með því að nota kalda/heita bakstra á spöngina ef hún bólgnar eða safnar bjúg?

Með von um hjálpleg svör, mamman.


Komdu sæl og til hamingju með barnið!
 
Það er rétt hjá þér að meðganga og fæðing veldur auknu álagi á grindarbotninn með þrýstingi og togi á grindarbotnsvöðvana og veldur því, að þeir verða oft slappir að fæðingu lokinni. Þess vegna er rétt að þjálfa þá reglulega á barneignaaldrinum til að vera betur undir álagið búin þegar að meðgöngu og fæðingu kemur. Þeim mun styrkari sem grindarbotnsvöðvar eru á meðgöngu þeim mun styrkari eru þeir einnig eftir fæðingu og þola þá meira álag. Það er einnig mikilvægt að stunda heilbrigða lífshætti eins og að hreyfa sig skynsamlega og borða reglulega hollan og trefjaríkan mat og drekka ríkulega vatn til að halda hægðum reglulegum og mjúkum.

Þú talar um hættu á að missa hægðir og erfiðleika við að halda í þér þvagi. Það eru vandamál, sem eru vel þekkt í kjölfar meðgöngu og fæðingar. Þvagleki er töluvert algengur eftir fæðingu og gengur oftast til baka innan þriggja mánaða frá fæðingu en getur orðið langvarandi vandamál. Hægðaleki er mun sjaldgæfari en getur líka gengið til baka eftir fæðingu á nokkrum vikum eða mánuðum um leið og það er jákvætt að vera samviskusamur að gera grindarbotnsæfingarnar til að hjálpa til við það. Ef hvorugt gengur til baka þremur til sex mánuðum eftir barnsburð þrátt fyrir grindarbotnsæfingar er kannski rétt að leita læknis t.d. kvensjúkdómalæknis, til að láta meta ástandið frekar. Það getur komið fyrir að hringvöðvi endaþarms skaðist í fæðingunni án þess að það greinist með berum augum strax eftir fæðinguna en sem er hægt að greina með sérstakri sónarskoðun. Það getur komið til aðgerðar á endaþarmsvöðva hjá konu með alvarleg hægðalekavandamál, sem er þá gerð eftir að hún er hætt barneignum eða hún fæðir með keisaraskurði eftir slíka aðgerð. Mér heyrist þó ekki vera um slíkan alvarleika að ræða hjá þér.

Vertu þolinmóð og samviskusöm að gera æfingarnar í þrjá til sex mánuði og fylgstu með hvort þú finnur ekki mun á þér, þegar fram í sækir. Það er þó erfitt að gefa skýr tímamörk en þegar þér finnst tímabært að leita læknis þá er það rétti tíminn fyrir þig. Rannsóknum ber ekki saman um hvað orsaki þvagleka eftir fæðingu en það hafa komið fram vísbendingar um ýmsa fæðingarfræðilega þætti, sem geta aukið líkur á þvagleka eins og eldri mæður, margar fæðingar konu, offita konu, stór börn, erfiðar fæðingar t.d. tangarfæðingar, langt rembingstímabil (oft miðað við >1 klst.) og áverki á grindarbotn. Varðandi stellingar í fæðingu virðist það vera verndandi fyrir spöngina að fæða liggjandi á hlið.              

Það er jákvætt að þú skulir treysta þér til að spyrja um þetta mál og hjálpar til við að útrýma þessu „tabúi“ sem konur eru feimnar við að nefna en þetta er í raunar eðlilegur fylgifiskur meðgöngu og fæðingar og er þér alveg óhætt að nefna þetta við lækninn þinn eða ljósmóður því fagfólkið þekkir þetta vandamál.

Gangi þér vel með æfingarnar.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. júlí 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.