Af hverju hættir morgunógleði við 12 vikur?

07.03.2008

Er vitað af hverju ógleðin hættir yfirleitt í kringum 12 viku? Maður hefur heyrt kenningar um að fóstrið nærist á annan hátt, en þær eru pínulítið skrítnar, alla vegana þessar sem ég hef heyrt.

Takk fyrir einstaklega vel heppnaðan vef, hef eytt ómældum tíma í að fletta í gegn um vikurnar, fróðleik og fyrirspurnir.

Mamma með morgunógleði.


Sæl og blessuð!

Þetta er dálítið erfið spurning því það er í raun ekki vitað með vissu hvað veldur ógleði á meðgöngu og þá að sama skapi hvers vegna hún hættir. Talið er að um 50-90% kvenna finni fyrir ógleði á meðgöngu, sumar á fyrstu vikum meðgöngu en aðrar finna ógleði af og til á meðgöngunni. Það er algengt að ógleðin byrji við 5-7 vikna meðgöngu og hætti við 14-16 vikna meðgöngu. Ógleðin getur verið á hvaða tíma dags sem en er en virðist vera algengust á morgnana.

Það eru nokkrar tilgátur um orsakir og ef til vill eru orsakirnar fleiri en ein.

  • Aukning á hormóninu Estrogen, en það næstum hundraðfaldast á meðgöngu.
  • Lágur blóðsykur. Þessi orsök er talið skýra það hvers vegna ógleðin er algengari á morgnana.
  • Aukning á hormóninu progestrone sem slakar á legvöðvanum til að fyrirbyggja fæðingu fyrir tímann. Aukning á þessu hormóni getur leitt til þess að slökun verður í sléttum vöðvum maga og smáþarma sem getur valdið aukningu á magasýrum.
  • Aukning á þungunarhormóninu human chorionic gonadotropin. Framleiðsla þessa hormóns nær hámarki um 60-90 dögum (8-13 vikum) eftir getnað en lækkar svo aftur. Þetta hormón er auðvitað líklegt til að vera orsök fyrir ógleðinni en það hefur þó ekki verið sannað ennþá.
  • Aukið næmi fyrir lykt sem getur valdið ógleði

Sumir telja að ógleði á fyrsta þriðjungi meðgöngu sé til að vernda fóstrið gegn óhollustu því neysla áfengis, fitu og sykurs getur valdið ógleði. Eins og þú hefur eflaust heyrt þá er talað um að mikil neysla koffíns á fyrstu vikum meðgöngu auki líkur á fósturláti. Í niðurstöðum rannsóknar sem biritst nýlega kemur fram að meiri hætta er á fósturláti hjá þeim konum sem einhvers koffíns neyta, miðað við þær sem ekkert koffín fá. Jafnframt kemur fram að konur sem neyta 200 milligramma (u.þ.b. 2-3 bollar) eða meira af koffíni daglega eru í tvöfaldri hættu á við áhættuna hjá hinum. Það er líka vitað að margar konur hafa alls ekki lyst á kaffi á fyrstu vikum meðgöngunnar svo ef til vill er það þessi verndandi þáttur.

Vona að þetti skýri málið aðeins.

Það eru nokkur ráð við morgunógleði undir Meðgöngukvillum - hér á vinstri spássíunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. mars 2008.