Spurt og svarað

20. apríl 2007

Grindarverkir

Sælar ágætu ljósmæður og takk fyrir góð ráð.

Ég er komin 36 vikur og geng með mitt fjórða barn. Meðgangan hefur gengið
vel, fyrir utan vaxandi verki neðst í legi og í lífbeininu. Ég hef fundið
mikinn þrýsting niður frá svona á miðri meðgöngunni sem ágerast eftir sem
líður á daginn. Nú er þetta þannig að ég á mjög bágt með gang, get ekki
beygt mig niður, get illa haft fæturnar saman, sit td. mjög gleið og geng
líka þannig. Sviðinn er mikill í lífbeininu og jafnvel líka þegar ég ligg.
Ljósmóðirin mín telur að um grindarverki sé að ræða og að þeir gangi til
baka eftir fæðinguna. Mig langar til að spyrja ykkur út í þetta ástand. Er
eitthvað hægt að gera til að líða betur og líka hvort þetta hafi áhrif í
fæðingunni sjálfri?

Kær kveðja og þakkir.


Komdu sæl

Þetta hljómar eins og grindarverkir og það er rétt að þeir ganga til baka eftir fæðinguna.  Það er ýmislegt hægt að gera til að láta sér líða betur og hvíld er eitt af því.  Forðast stiga og að bera þunga hluti.  Passa upp á líkamsstellingar við alla hreyfingu en líka þegar þú liggur, hafa kodda milli lappanna og vera á snúningslaki.  Meðgöngusund hefur reynst mörgum konum með grindarverki mjög gott en einnig er hægt að fara í sjúkraþjálfun ef þú ert mjög slæm og getur fengið tilvísun frá lækni. 

Þú kemur ekki til með að finna neitt fyrir þessu í fæðingunni, en það er sjálfsagt að segja ljósmóðurinni sem tekur á móti frá þessu.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
20. apríl 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.