Gyllinæð

07.02.2011

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég er búin að skoða svörin frá ykkur um gyllinæð en ég er samt að spá í eitt.  Núna er ég gengin 37 vikur og
ástandið er orðið þannig að ég finn til jafnvel þó að ég liggi fyrir.  Ég er með svo mikla gyllinæð að það er orðið vont að pissa jafnvel.  Hægðirnar hafa alltaf verið í lagi og það blæðir ekkert með þessu en undanfarið hef ég fundið svona harðan hnút innan um allt gumsið sem kemur út um endaþarmsopið.  Ég hef reynt að ýta þessu aftur inn og verkirnir skána eitthvað við það en það er bara mjög tímabundið sem það virkar.  Fyrir tæpum 5 árum síðan eignaðist ég tvíbura og í eftirskoðuninni sagði læknirinn mér að það væri best fyrir mig að fara í aðgerð til þess að laga gyllinæðina sem kom eftir fæðinguna.  Tek það fram að hún var ekki til vandræða á þeirri meðgöngu.  En hann tók það líka fram að það væri jafnvel betra að bíða með aðgerð þar til ég væri hætt að eiga börn, sem ég og gerði.  Núna semsagt er þetta orðið að rosalegu miklu vandamáli þar sem ég fnn til nánast allan sólarhringinn.  Ég er búin að bera krem á þetta en mér finnst það ekkert gagnast, nota alltaf blautklúta og passa upp á að hægðirnar séu mjúkar.  Það kemur ekkert blóð og ég hef ekki haft neinn kláða að ráði en ég er farin að nota kælingu þegar verst er en það er erfitt að vera með klaka í nærbuxunum allan daginn!  Mín spurning er sú hvort að það sé eitthvað hægt að gera annað, því ég er farin að kvíða því þegar að fæðingunni kemur hvort þetta fari allt fjandans til í rembingnum.  Er
hægt að skera eitthvað í þetta eða má ég taka einhver verkjalyf við þessu? 

Enn og aftur vil ég þakka frábæran vef.

Kveðja Birta


Sæl Birta.

Þetta er hvimleitt vandamál sem þú ert að fást við.  Þú minnist ekkert á hvort þú hafir notað stíla til að hjálpa þér heldur bara kremið svo ég ráðlegg þér að nota stílana líka.  Þú þyrftir líka að hitta lækni (heimilislækni) sem getur kannski útvegað þér sterkari stíla, og krem, en þá sem þú færð í apóteki.

Það er ekki tímabært að fara í aðgerð núna á meðgöngunni en að sjálfsögðu þarf að meta það eftir fæðingu.

Gyllinæð er venjulega ekki vandamál í fæðingunni en láttu ljósmóðurina þína endilega vita af þessu þegar þú kemur inn til að fæða.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. febrúar 2011.