Spurt og svarað

12. október 2014

Há blóðprósenta

Mig langar að spyrja hvort ég sé að gera úlfalda úr mýflugu. En málið er að ég er komin 23 vikur með mitt 3 barn, er 37 ára gömul, og þessi meðganga hefur ekki gengið svo vel, heilsufarslega. Ég er með stanslausan hjartslátt í höfðinu sem verður bara verri ef ég þarf að taka eitthvað á eða gera eitthvað sem eykur hjartsláttinn aðeins. Það var mæld blóðprósenta hjá mér því ljósan mín hefur grun um að ég sé lág í járni, en ég er vanalega með frekar háa blóðprósentu, og tek t.d. ekki auka járn eða fólinsýru því bæði auka blóðið í kroppnum. En þegar þetta var mælt hjá mér á 21 viku þá mældist ég með 13,8 (14 er 100%), og sögðu hjúkkurnar sem tóku blóðið að þetta væri bara mjög fínt. Ég fór svo aðeins að leita mér upplýsinga á netinu því þetta eru allt aðrar tölur en eru notaðar heima á íslandi (bý í noregi), og þar les ég að konur eigi helst ekki að vera yfri 13,2 eftir 20 viku meðgöngu, því það bendi eitthvað til að blóðið sé ekki að þynnast sem geri að barnið fái kannski ekki það sem það þarf í gegnum fylgjuna. Er ég s.s að panikka yfir því að þessu er tekið svona létt hérna, engin eftirfylgni, engar frekari mælingar planaðar eða neitt, eða ætti ég að ýta eftir að fá frekara tékk. Ég hef líka frekar mikinn bjúg bæði á fótum og á prívatsvæðinu og er mjög bólgin við lífbeinið, sem ljósan mín var ekki sérlega ánægð með í síðustu skoðun. Veit ekki hvort þetta hangir allt saman, eða hvort ég ætla bara að fá alla kvilla í bókinni núna á þessari meðgöngu.


Komdu sæl og bestu þakkir fyrir bréfið þitt
Eftir því sem ég hef reynt að finna er lítið sem ekkert skrifað um há blóðgildi á meðgöngu, þ.e. ekki er litið á það sem vandamál ef þau mælast há. Miklu frekar er það talið góðs viti að konur séu með góð blóðgildi. Reyndar má geta þess að ef kona reykir þá er algengt að blóðgildi séu hærri en annars væri, gildir það líka í meðgöngu. Hins vegar geta lág blóðgildi á meðgöngu haft þau áhrif að birgðir móðurinnar af járni minnki, en oftast fær fóstrið það sem það þarf til að vaxa og þroskast.
Ég velti fyrir mér hvort hér geti blandast saman hjá þér há blóðprósenta og hár blóðþrýstingur á meðgöngu. En hækkaður blóðþrýstingur getur haft áhrif á starfsemi fylgjunnar og minnkað blóðflæði til hennar og þar með minnkað flutning næringarefna og súrefnis til fóstursins. Getur það haft áhrif á vöxt og þroska þess, ef slíkt ástand er langvarandi og ómeðhöndlað.
Þú ættir endilega að panta tíma hjá ljósmóðurinni þinni í mæðraverndinni og spjalla við hana um áhyggjur þínar og biðja hana að mæla aftur blóðgildi og blóðþrýsting og athuga þvagið, ekki síst ef bjúgurinn er að aukast eða óþægindin í höfðinu.
Vona að þetta svari að einhverju leyti spurningum þínum.


Gangi þér vel,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
12. október 2014.




Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.