Hætta á að fara af stað of snemma

15.08.2007

Góðan daginn og takk kærlega fyrir góðan vef sem ég hef sótt mikinn fróðleik á.

Þannig er að ég er gengin 24 vikur með mitt þriðja barn. Yngra barnið mitt er 9 ára svo það er langt síðan ég hef gert þetta.Á fyrstu meðgöngu fór ég af stað á 27. viku og var stoppuð með Bricanyl drippi og svo síðar fékk ég töflur og gekk með barnið fulla meðgöngu og viku betur. Á annarri meðgöngu fór ég af stað á 28.viku en nóg var að setja mig í algjöra hvíld til að stoppa mig af og gekk ég með barnið fulla meðgöngu uppá dag. Nú er svo komið að ég er hætt að vinna vegna grindargliðnunar og tek því þar af leiðandi mjög rólega. En við hvern smá verk sem ég fæ, seyðing eða þrýsting stressast ég öll upp og fer að hugsa um hvort ég sé að fara af stað. Ég er búin að fara tvisvar í mæðraskoðun,við 16. og 22. viku og tjáð þennan ótta minn en ekkert var rætt um hann og á ekki skoðun fyrr en ég verð komin 26 vikur. Er farin að finna fyrir andþyngslum þrátt fyrir að vera ekki með stóra kúlu og koma þau hvort sem ég er útafliggjandi eða upprétt og ég er farin að hugsa um hvort þetta sé eitthvað kvíðatengt því ég man ekki eftir að verða svona fyrr en undir lok meðgöngu í hin skiptin. Eins finnst mér ég vera freka lág í blóði en ég fór í mælingu komin 16 vikur en fékk ekki niðurstöður fyrr en komin 22 vikur og þá var gildið 116 og hafði þá lækkað úr 125 á fimm dögum. Greinilega telst ég ekki til áhættumeðgönguhóps fyrst ég er bara í reglulegum skoðunum og finnst hálf móðursýkislegt að hringja uppá deild við hvern verk en staðreyndin er sú að suma daga fer ég ekki úr rúmi vegna þess að ég er með verki, þyngsli í bumbunni. Ekki reglulega samdrætti samt. Er rangt að mér að ætlast til þess að ég fái aukaskoðanir hjá ljósmóðurinni minni, jafnvel viðtöl við einhvern sérfræðing til að losa mig við þessa ógurlegu hræðslu?

Með fyrirfram þökkum.


Sæl mín kæra og takk fyrir fyrirspurnina!

Ég skil vel þína líðan, þetta veldur manni oft áhyggjum og maður veit ekki alveg hvort eigi að hringja og fá að koma í skoðun eða hvort maður eigi að bíða og sjá til, en ég tel að þú eigir frekar að hringja oftar en sjaldnar,og einnig áttu rétt á að koma oftar í skoðanir ef þú hefur áhyggjur. Það hjálpar oft þá er maður rólegri, þar sem þú hefur líka sögu um að aukna samdrætti og vandamál á fyrri meðgöngum. Ljósmóðirin þín gæti pantað viðtal við fæðingarlækni á Landspítala og látið meta þig eins og það er kallað og þú fengir þá góðar útskýringar í leiðinni. Hringdu sem fyrst í ljósmóðurina þína og fáðu að koma í aukaskoðun og lýstu þessum áhyggjum þínum fyrir henni. Það er betra að fara þessa leið þá kemstu kannski að í mæðraskoðun á LSH, ef læknarnir meta það svo.

Með von um að þetta hafi hjálpað þér.

Með kærri kveðju,

Sigrún E.Valdimarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. ágúst 2007.