Hætta að reykja

29.01.2007

Ég reyki og er komin 33v6d er búin að vera með fyrirvara verki, geng með mitt 3 barn. Ég fór á spítala í gær og var ég skoðuð og fór í rit en engir samdrættir sáust, samt fann ég svona þrýsting og pílur niður. Barnið er ekki búið að skorða sig. Það var tekið strok og ég skoðuð um leið.  Ljósmóðirin sagði að leghálsinn væri að mýkjast og YTRA OPIÐ TEKUR FINGUR EN INNRA LOKAÐ. Get ég fengið betri lýsingar á hvað það þýðir.

Einnig talaði hún um að reykingar geta komið af stað samdráttum og barnið fær ekki það súrefni sem það þarf og fer því legið að vinna og ráðlagði hún mér að hætta sem allra allra fyrst. En nú spyr ég hvað get ég gert til að hætta er t.d í lagi að vera með plástur eða eitthvað annað hjálpar efni svona fyrstu vikuna eða er það bara stór hættulegt?  Þegar ég spurði að þessu þegar ég varð ólétt var sagt við mig að það væri ekki ráðlegt fyrir óléttar konur en væri þó betra en reykingar. Hvað get ég gert.

kv Ágústa


Komdu sæl Ágústa, gott að heyra að þú ætlar að hætta að reykja.

þú getur notað plástur, tyggjó eða eitthvað annað til að hjálpa þér því það er ekki hættulegra en reykingarnar sjálfar, ef þú notar þetta ekki í óhófi.  Þú getur líka pantað þér tíma hjá Karitas á Miðstöð mæðraverndar, hún er ljósmóðir sem hefur sérhæft síg í að hjálpa konum á meðgöngu að hætta að reykja.  Síminn þar er 585-1400.  Einnig er hægt að fá símaráðgjöf til að hætta að reykja en síminn þar er 800-6030.

Leghálsinn er 3-4 cm. langur og er eins og lítil göng.  Ytra opið er sá endi sem gengur niður í leggöngin og þar hefur ljósmóðirin komið fingri inn.  Innra opið er svo endinn sem vísar upp í legið og með því að fara með fingurinn inn í leghálsinn getur maður fundið innra opið sem hefur verið alveg lokað.  Fæðing byrjar með því að leghálsinn mýkist, færist fram, styttist og opnast.  Hann er þó oft mýkri og aðeins opinn hjá þeim sem hafa fætt áður. 

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 
29.01.2007.