Spurt og svarað

25. mars 2013

Hagstæður legháls

Sælar og takk fyrir frábæran vef.
Ég var að velta því fyrir mér hvað það þýðir að vera hagstæð? Maður getur lesið ýmislegt til um byrjandi fæðingu og hvenær hægt sé að byrja á húsráðunum skemmtilegu eða hvenær hægt sé að byrja að framkalla fæðingu og alls staðar er sagt að legháls þurfi að vera hagstæður. Hvað þýðir það nákvæmlega í tölum? Hversu margir cm þarf leghálsinn að vera til að teljast hagstæður og hvað þurfa að komast margir fingur/mikil útvíkkun?
Sæl vertu og bestu þakkir fyrir spurninguna.
Það er von að þú spyrjir, hvað sé að vera hagstæð? Stundum tölum við ljósmæður eins og allir þekki og kunni það mál og orðatiltæki sem notuð eru í og kring um meðgöngu og fæðingu á sama hátt og við. Ég ætla að reyna að útskýra þetta í stuttu máli og skiljanlegu.
Á meðgöngu er leghálsinn allt að fimm cm langur (lengd legháls) og liggur oft aftur á við í átt að baki. Tölum við þá um að hann sé afturstæður (staða legháls). Því fylgir gjarnan að hann sé stífur, eða líkt því að koma við fingurna á sér. Eftir því sem nær dregur fæðingu breytist magn fylgjuhormónanna og valda þau því að leghálsinn mýkist (mýkt legháls), verður eftirgefanlegri og styttist (lengd legháls, metið í cm), færist framar (í átt að kvið, staða legháls) og byrjar að opna sig, (við metum opið með fingrunum, einn fingur rúmur cm, tveir fingur eru þrír cm o.s.frv.) (útvíkkun legháls).  Þegar barnið þrýstir sér niður í grindina (framgangur fósturhluta (barnið skorðar sig)) hjálpar það til við þessar breytingar á leghálsinum. Að lokum verður leghálsinn mjög þunnur og eftirgefanlegur, rétt eins og húðin milli þumalfingurs og vísifingurs, og gefur að lokum eftir þannig að útvíkkun klárast.
Þegar lagt er mat á það hversu kona er hagstæð fyrir fæðingu, það er hæfni leghálsins, sem stundum er kallað svo, erum við að meta þessa þætti sem ég nefndi hér að framan, það er:
Stöðu legháls – mýkt legháls – lengd legháls – útvíkkun legháls – framgang fósturhluta.
Gefin eru stig frá  0 -3 fyrir hvert atriði og telst leghálshæfni með einkunn 7-9 vera góð og frá 9 -13 vera ágæt og því séu líkur á að styttist í fæðingu eða að gangsetning, ef hún er áætluð, geti gengið vel fyrir sig. Sé einkunn lægri en 7-13, má ætla að fæðingar sé ekki að vænta allra næstu daga, eða að lengri tíma taki að setja konu af stað í fæðingu.
Ég vona að þetta svari spurningu þinni og gangi þér vel.


Bestu kveðjur
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir og kennari,

25. mars 2013
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.