Háir hælar

13.12.2010

Var að skoða meðgöngudagatalið á síðunni og þar segir við 26.viku að ekki sé seinna vænna en að hætta að ganga á háum hælum! Hvað mælir á móti því að ganga á háum hælum við hátíðleg tækifæri ef maður treystir sér til?


Sælar!

Þetta er góð ábending hjá þér. Ég held að það sé bara ekkert sem mælir á móti því ef konan treystir sér til! Hugsunin á bak við þessa ráðleggingu sú að liðbönd eru slakari á meðgöngu og því hættara við tognun ef kona misstígur sig, jafnvægispunkturinn breytist líka þannig að það getur verið erfiðara að halda jafnvægi á háum hælum og svo er þetta auðvitað álag á mjaðmagrindina sem getur verið vont fyrir sumar konur.

Við höfum þetta í huga þegar farið verður í að endurskoða meðgöngudagatalið sem vonandi verður gert á næsta ári því við höfum fengið margar ábendingar um ýmislegt sem þar má betur fara.

Hælakveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. desember 2010.