Spurt og svarað

07. maí 2007

Hátt sýrustig þvags

Góðan dag
Í síðustu mæðraskoðun reyndist sýrustigið í þvaginu mínu vera hærra en 
venjulega (veit reyndar ekki hve hátt). Ljósmóðirin hafði ekki áhyggjur af þessu en þetta er aðeins búið að hvíla á mér síðan. Hvað orsakar hátt sýrustig í þvagi? Getur það haft einhver slæm áhrif á mig eða barnið? Af hverju er sýrustigið mælt?  Mér finnst ljósmóðirin mín segja mér svo lítið og ég er ekki nógu dugleg að spyrja.
 
Kveðja,
23v 

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.
 
Það eru nokkur atriði sem geta haft áhrif á sýrustig þvags á meðgöngu:
 
  • Samsetning og fæðuval getur haft áhrif - grænmetisfæði hækkar sýrustig þvagsins tímabundið
  • Á meðgöngu breytist starfsemi nýrnanna og þvagleiðaranna og það getur haft þau áhrif að sýrustig þvags hækkar
  • Sum lyf geta haft áhrif á sýrustig þvags
  • Einnig getur hækkun á sýrustigi þvags gefið vísbendingu um þvagfærasýkingu
 
Í raun hefur lítil og tímabundin hækkun engin áhrif en ef hún er til lengri tíma er oftast um þvagfærasýkingu að ræða og þá getur hún leitt til fæðingar fyrir tímann ef sýkingin er ekki meðhöndluð fljótt.  Einkenni þvagfærasýkinar eru tíð þvaglát eða treg, sviði við þvaglát, verkir yfir lífbeini, verkur í baki og jafnvel harðlífi.  Ef þú hefur einhverjar áhyggjur skaltu hafa samband við ljósmóðurina þína og ræða um þetta við hana.  Mér finnst samt líklegt að þetta hafi ekki verið svo mikil hækkun að vert sé að hafa áhyggjur af þessu. 
 
Vona að þetta svari spurningu þinni.  Gangi þér vel.
 
 
 
 Þórdís B. Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. maí. 2007.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.