Hefur meðganga áhrif á sjónina?

18.09.2010

Sælar og takk fyrir frábæra síðu.

Ég er með smá fyrirspurn varðandi sjónina á meðgöngu. Er genginn u.þ.b. 23 vikur og bara undanfarna daga er ég farin að taka eftir því að sjónin er farin að versna rosalega mikið og rosalega hratt. Ég tók t.d. eftir því í gær var ég að keyra og gat ekki lesið á skiltin fyrr en ég var komin mjög nálægt þeim. Gæti verið að sjónin versni á meðgöngu, og ef svo, gengur það þá til baka aftur? Einnig hef ég verið að prjóna mjög mikið undanfarna daga þannig að ég er að fókusera á eitthvað sem er mjög nálægt mér. Getur það haft einhver áhrif líka? Finnst nefnilega stundum erfiðara að lesa á sjónvarpinu þegar ég er nýbúin að vera að prjóna.


Sæl og blessuð!

Meðganga getur haft áhrif á sjónina vegna hormóna, vökvasöfnunar og breytinga í blóðrásarkerfi.

Vökvasöfnun getur t.d. valdið því að hornhimna augans þykknar lítillega og sveigjan í henni eykst. Þetta eru ekki miklar breytingar en geta valdið því að sjónin breytist lítillega. Ef breyting verður á sjón á meðgöngu verða flestar nærsýnni en áður. Þetta er ein ástæða þess að ekki er mælt með laseraðgerð á augum á meðgöngu. Af sömu ástæðu er yfirleitt ekki mælt með því að láta mæla sjónina m.t.t. þess að fá ný gleraugu eða linsur á meðgöngu.

Ef breyting verður á sjóninni á meðgöngu er líklegast að þær breytingar gangi til baka nokkrum mánuðum eftir fæðingu.

Það geta auðvitað orðið breytingar á sjón óháð meðgöngu og vissara að láta athuga með sjónina ef breytingarnar eru verulegar. Tímabundið álag og þreyta geta haft einhver áhrif en þau áhrif ættu að hverfa við góða hvíld.

Ef þetta lagast ekki fljótlega þá ættir þú að láta athuga sjónina hjá þér.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. september 2010.

Heimild: http://www.babycenter.com/0_vision-changes-during-pregnancy_1456567.bc