Spurt og svarað

09. febrúar 2015

Helaum brjóst.

Sælar, takk fyrir frábæra síðu, hefur komið að miklum notum! :) En svo er mál með vexti að ég er komin 7 vikur á annarri meðgöngunni minni. Ég hef verið virkilega aum í brjóstunum frá 3 viku meðgöngunnar, brjóstin eru ástæða þess að ég tók próf sem kom svo blússandi já. Ég fór í snemmsónar og komst að því að ég væri komin svona stutt. Ég var voða hissa því miðað við brjóstin gerði ég ráð fyrir að vera allavega 5 vikur þegar ég tók prófið og miðað við blæðingar (var að hætta á pillunni sem raskaði aðeins egglosinu). Ég er það aum og viðkvæm að það má varla koma við brjóstin, ég sef illa og ég kvíði fyrir því að fara úr brjóstahaldaranum vegna þess ég get varla hreyft mig án þess að væra nálægt því að grenja því það er svo vont. Ég er frekar brjóstastór og hefur alltaf fundist voða gott að fara úr brjóstahaldaranum í lok dags og vera svolítið frjáls, ég finn alveg það eru engar stíflur eða neitt svoleiðis, þetta er líklegast bara undirbúningurinn fyrir brjóstagjöf. Það sem ég er að velta fyrir mér er eitthvað sem ég get gert til að draga aðeins úr þessum eymslum annað en mjúkir brjósthaldarar því ég er nú þegar alltaf í þannig.Ég er ekki alveg að meika að vera svona alla meðgönguna. Með fyrirfram þökkum :)

 
 Sæl og blessuð. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að vera svona alla meðgönguna. Brjóstaeymsli er algengt þungunareinkenni í upphafi meðgöngunnar og orsakast af hormónum. Oft er þetta fyrsta þungunareinkenni sem konur finna fyrir og verður oft til þess eins og í þínu tilfelli að þær gera óléttupróf.  Yfirleitt eru þessi eymsli gengin yfir að langmestu leyti við 12 vikur. Það er ekki neitt sem hægt er að gera í þessu af því að þetta eru hormónar að störfum og ekki er hægt að viðhalda meðgöngunni án hormóna. Það borgar sig og er þægilegra að vera í brjóstahaldara sem passar vel og gjarnan ekki með spöngum. Oft þarf að kaupa stærri haldara því að brjóstin geta stækkað um skálastærð. Stundum eru einkennin farin eða mikið dregið úr þeim fyrir 12 vikur. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
09.feb.2015
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.