Hella fyrir eyrum á meðgöngu

18.01.2010

Ég geng með mitt 3ja barn og er komin um 20 vikur á leið. Ég er búin að finna fyrir síðasta mánuðinn að ég fæ stöðugt hellu fyrir eyrun. Ég man greinilega eftir þessu þegar ég var ólétt síðast. Þá hélt ég bara að þetta væri ekki tengt óléttunni. Ég losnaði við helluna eftir að ég átti barn nr. 2.  Því spyr ég hvað getur verið að valda því að maður fái stöðuga hellu fyrir eyrun meðan á meðgöngu stendur. Ég vil taka það fram að ég er
fullfrísk, með hátt járngildi og eðlilegan blóðþrýsting.Komdu sæl.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki heyrt þetta áður að hella tengist meðgöngu en það eina sem mér dettur í hug er að blóðmagn eykst mikið á meðgöngu og því eykst þrýstingur í höfðinu (margar konur fá frekar höfuðverk á meðgöngu en annars) sem kannski getur svo leitt til þess að konur fái hellu fyrir eyrun.  Ef þetta pirrar þig mikið eða háir þér myndi ég ráðleggja þér að tala við háls- nef- og eyrnalækni.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
18. janúar 2010.